Fara í efni

EKKI RÍKISÁBYRGÐ FYRIR EINKAFYRIRTÆKI!

Sæll Ögmundur ...
Ég var að lesa pistil Þórs Þórunnarsonar á vefsíðunni þinni, og vægt til orða tekið, hryllir mig við tþví sem þar kemur fram; tilhugsuninni um hvað stjórnvöld Sjálfstæðisflokksins,  Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar hafa gert íslensku þjóðinni undanfarin ár. Ef Þór hefur virkilega rétt fyrir sér, sem ég efast ekki um, þá er ekki nóg með að einkavinavæðingin hafi að mestu leyti verið hreinn þjófnaður á sameignum íslensku þjóðarinnar sem hún hefur haft mikið fyrir að eignast, heldur hafa stjórnvöld gert ríkissjóð ábyrgan fyrir braski einkafyrirtækja. Þetta kann að gerast óbeint því hvergi stendur á blaði að ríkið gangist í ábyrgð en í reynd er þetta hins vegar svona.  Eins og fyrri daginn, þá er ætlast til í þágu einkavinavæðingar heilbrigðiskerfisins, að það sé allt í lagi að einhverjir feitir einkabubbar fái að græða á kostnað almennings, en almenningur skal gjöra svo vel að bera ábyrgðina og borga brúsann.  Það er ekki eingöngu glæpur ef ríkissjóður er látinn standa í ábyrgð fyrir einkabankastarfsemina, heldur er glæpur ef íslenska ríkið stendur í ábyrgð fyrir hvaða einkafyrirtæki sem er!
Ég er persónulega fullkomlega sammála Þór að mikilvægt er að fólk skilji til hlítar á hvern hátt þjóðin er fénýtt!  Þetta er mál sem verður ekki leyst með þeim meirihluta fólks sem nú vermir bekkina í stjórnarmeirihluta á Alþingi, heldur verður Forseti lýðveldisins að beita sér einsog Stjórnarskrá lýðveldisins leyfir, taka hér í taumana með aðstoð þeirra fáu sem þjóðin getur treyst. Nú hlýtur, meirihlutinn, þjóðarheildin að segja hingað og ekki lengra!

Persónulega var ég á sínum tíma ekki sammála Þór um einkavæðingu bankanna, því um er að ræða einokunarstofnanir í þjónustu alls almennings. Ekki gróðafyrirtæki fyrir einstaklingsbraskara, heldur peningaþjónustufyrirtæki í þeim skilningi að peningar séu nauðsynlegt verkfæri, eða tæki í nútíma þjóðfélagi, en ekki til að græða á í sjálfu sér með braski eða notaðir til að skapa einstökum einstaklingum vald umfram annað fólk í okkar "lýðræðis" þjóðfélagi. Auðvaldið hefur aldrei á rétt á sér og stenst engan veginn í nútíma lýðræði!  Ég sé ekkert rangt við að einkaaðilar stofni og reki sín fyrirtæki og græði á þeim við heilbrigða samkeppni, en að hreinlega stela skipulagt almannaeignum með aðstoð pólitíkusa, sætti ég mig ekki við!

Ég er sammála Þór að bankar eiga auðvitað ekki að vera valdasvið uppgjafa pólitíkusa og annarra vildarvina eins og áður var. Félagshyggjufólk verður að átta sig á að það verður að ráða bestu fagmenn hverju sinni til að gegna stöðum og störfum sínum í þágu þjóðarinnar. Ekki á ofurlaunum, eða á starfssamningum, til æviloka, heldur á sömu kjörum og annað fólk í þjóðfélaginu. Þetta sukk er einmitt hið kostnaðarsama böl núverandi utanríkisþjónustu, baggi á skattgreiðendum, sem  kominn er tími til að endurskoða gaumgæfilega.  Þetta er sukkið sem Framsóknarflokkurinn stóð að þegar hann var við lýði, og sama sjónhverfingin sem Samfylkingin heldur nú við og eflir við óhuggulegan orðstír. Sjálfstæðisflokkurinn stjórnar og foringinn glottir við tönn.
Úlfur