Fara í efni

ÍSLENSKA RÍKIÐ Í MILLJARÐA SKULDBINDINGU VEGNA EINKAFYRIRTÆKIS

Þegar einkavæðing bankanna stóð fyrir dyrum þá var ég örlítið efins. Ekki það að ég væri ósammála flestum þeim rökum sem beitt var fyrir einkavæðingu. Aðallega fannst mér gott til þess að vita að afdanka stjórnmálamenn hefðu ekki áskrift að bankastjórastöðum þegar þeir nenntu ekki, eða fengu, að vera lengur á þingi. Einnig var ég sammála því að óþarfi væri, í sjálfu sér, að ríkið stæði í bankastarfsemi. Ég ætla ekki hér að rekja þá umræðu frekar, heldur benda á eitt atriði sem að, e.t.v. fleiri en ég, hafi ekki áttað sig á, í tengslum við einkavæðingu bankanna, en það er ríkisábyrgð. Það var við lestur Fréttablaðsins þann 29. janúar síðastliðinn sem ég rakst á frétt sem bar yfirskriftina: “Krónan of lítil fyrir bankana”. Það sem fréttin gekk út á var að Moody´s (lánshæfis-mats-útgefandi) sagði blikur á lofti varðandi lánshæfni RÍKISSJÓÐS. Það er verið að ýja að því að stærð bankanna væri orðin það mikil að áföll einstakra banka gætu haft alvarleg áhrif fyrir ríkissjóð, eða eins og sagði orðrétt í fréttinni: “Áframhaldandi alþjóðlegur vöxtur bankakerfisins er sagður hafa leitt til þess að ófyrirséðar fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins hafi vaxið upp fyrir æskileg mörk.” Það sem ég verð að draga athygli að, í þessu sambandi, er tvennt: Í fyrsta lagi – hvernig getur verið um að ræða ÓFYRIRSÉÐAR skuldbindingar ríkissjóðs, þegar um ræðir einkabanka; og í öðru lagi, voru ekki ein aðalrökin fyrir einkavæðingu að losa ríkissjóð undan ábyrgðum af starfsemi bankanna? Er það virkilega svo að nú eftir að bankarnir hafa verið einkavæddir, þá má almenningur bera skaðann þegar illa árar í bankastarfsemi en fær engan arðinn þegar betur gengur? Það hlýtur að teljast vægast sagt óeðlilegt að banki, sem hefur u.þ.b.70% af starfsemi sinni erlendis (og er þ.a.l. alþjóðlegur banki), geti sett ríkissjóð á hausinn ef hann er illa rekinn eða illa árar af einhverjum orsökum. Það hlýtur að orka tvímælis að starfsemi einkabanka geti rýrt lánskjör ríkissjóðs og þar með lífskjör í landinu. Ríkissjóður er sjóður sem fer með sameignir landsmanna. Um ríkissjóð ríkir sátt vegna samfélagslegs hlutverks hans. Tilgangur ríkisins, og þar með ríkissjóðs, er að reka hér velferðarsamfélag, sjá um samgöngur og halda uppi lögum og reglu. Ég fullyrði það að það sé hvorki tilgangur ríkissjóðs, né almenn sátt um, að ríkissjóður sé ábyrgðarsjóður fyrir einkabanka. Hver er sá valdhafi eða fulltrúi almennings, sem hefur veitt leyfi fyrir því að setja ríkissjóð í ófyrirséðar ábyrgðir fyrir einkabanka? Ég vil hvetja almenning að kanna þetta mál, því vel gæti farið svo að slæmar ákvarðanir einhvers bankastarfsmannsins, líkt og við vitnum nú hjá Societé General, geti orðið til þess að milljarða skuldbinding dytti á ríkissjóð og þar með þig og mig. Ég ákalla Íslendinga til að krefjast þess að tafarlaust verði ríkissjóður íslenska ríkisins fríaður, og gerður með öllu skuldbindingalaus, hvað varðar einkabanka af öllu tagi.
Þór Þórunnarson