Fara í efni

RÉTT HJÁ GUÐFRÍÐI LILJU!

Ég hlustaði á Silfur Egils í dag. Álver, álver, álver, mér sýnist þetta vera það eina sem Sjálfstæðisflokki dettur í hug, sem svar við samdrætti í efnahagslífinu. Grímur Atlason, bæjarstjóri í Bolungarvík, andmælti þessari nauðhyggjuhugsun ágætlega og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, VG,  af ekki síðri krafti en jafnframt raunsæi og yfirvegun. Hún benti á hinar raunverulegu lausnir, að styrkja innviði samfélagsins og koma síðan til móts við byggðarlögin á þeirra forsendum.  Við yrðum að hafa heildarsýn og horfa á hvað bæri að gera og einnig hitt, hvað bæri að varast. Varaði hún sérstaklega við hinum sovésku/sjálfstæðisflokks stórlausnum, sem hún nefndi svo, álverum og olíuhreinsistöðvum! Þetta er hárrétt nálgun auk þess sem ég vil bæta því við að nákvæmlega þetta sem, Guðfríður Lilja benti á, að efla menntun, bæta heilbrigðisþjónustuna og aðra innviði samfélagsins er verðmætasköpun í sjálfu sér. En hvernig á að borga fyrir þetta? Að því spurði Kristján Þór, þingmaðpur Sjálfstæðisflokksins, sem samþykkt hefur hundruð milljarða lántöku fyrir stóriðjuframkvæmdir með þá von í brjósti að það muni skila arði síðar! Skilur hann ekki að nákvæmlega þetta gerist með fjárfestingu í menntun, hún skilar okkur arði þegar fram líða stundir. Þetta skilur Guðfríður Lilja mæta vel og gaf það mér trú á framtíðina að hlusta á málflutning hennar. Takk Guðfríður Lilja.
Grímur