Fara í efni

SJÁLFSTÆÐIS-FLOKKURINN Á EKKI AÐ EIGA EMBÆTTI

Telst það eðlilegt ástand að stjórnmálaflokkur, í þessu tilfelli Sjálfstæðisflokkurinn, „eigi" ákveðin embætti hvort sem það eru dómaraembætti, sýslumannaembætti, staða seðlabankastjóra eða sendiherra eða nú síðast forstöðumaður Þjóðmenningarhúss? Svo virðist sem Sjálfstæðisflokkurinn komist upp með ásamt Framsóknarflokknum sem vonandi heyrir sögunni til að tryggja sínum mönnum þessi embætti hvort sem þau eru auglýst formsins vegna eður ei. Mér hefur alltaf fundist þetta fyrirkomulag minna óþyrmilega á gamlan arf frá danska einveldinu þegar Íslendingar máttu ekki gera neitt, hugsa neitt, aðhafast neitt, og kannski helst ekki hósta - nema með samþykki kóngsins í Kaupmannahöfn! Finnst þér Ögmundur eins og mér að þetta fyrirkomulag sé ekki í neinu samræmi við nútímalega stjórnsýslu? Hvenær skyldum við Íslendingar losna við þetta ofurvald Sjálfstæðisflokksins í eitt skiptið fyrir öll? Hvet þig og alla VG þingmenn eindregið að taka rækilega á þessu máli á þingi og ekki hætta fyrr en búið er að taka fyrir í eitt skiptið fyrir öll á þessari grófu misnotkun skipunarvaldsins. Baráttukveðjur fyrir betra og réttlátara stjórnkerfi á Íslandi!
Bestu kveðjur úr Mosfellsbæ,
Guðjón Jensson