Fara í efni

ÞRÍR KRATAR – EÐA FJÓRIR?

Ég var að hlusta á Hallgrím Thorsteinsson  og viðmælendur hans í þættinum Í vikulokin.  Einn viðmælenda var Benedikt Jóhannesson, nýskipaður stjórnarformaður nýrrar innkaupastofnunar í heilbrigðiskerfinu; stofnunar sem hefur verið afar umdeild, meðal annars af þinni hálfu Ögmundur. Benedikt dóseraði lengi um viðskiptavinina í heilbrigðiskerfinu. Mér skilst að hann hafi átt við sjúklinga. Kauphallarstjórinn, Þórður,  sem einnig var í þættinum, tók undir með Benedikt. Stjórnandinn, Hallgrímur, skaut því inn að þetta væri kratísk leið í heilbrigðismálum, hann hefði séð að Svíar væru á þessari línu. Hafði greinilega ekki kynnt sér hvaða Svíar vildu þetta og hverjir ekki. Íhaldið sænska fylgir nefnilega þessari stefnu eftir sem hægri kratarnir döðruðu við en hinir vinstri sinnuðu höfnuðu. Þóru Arnórsdóttur, fréttamanni, þótti líklegt að verið væri að gera allt þetta að ígrunduðu máli, Guðlaugur Þór hafi greinilega legið yfir því að finna út hvað væri best fyrir þjóðina - óháð öllum stjórnmálafordómum! Öll dásömuðu þau ný-Blairismann í heilbrigðismálum Íslands, sömu stefnu og er nú  að ganga að breska  heilbrigðiskerfinu dauðu. Það gerðist vegna þess að stjórnmálamenn og fjölmiðlar í Bretlandi sváfu vært. Álíka vært og viðmælendur Hallgríms í þættinum í dag. Allt greinilega ný-frjálshyggjukratar. Án gagnrýni.  Án minnsta snefils af gagnrýni. Ég gat ekki betur heyrt en stjórnandinn væri  samhljóma þeim í pólitíkinni - fjórði frjálshyggjukratinn.
Jóel A.