Fara í efni

VERÐMYNDUN OG ÁBYRGÐ

Gefum okkur nú að við búum í landi X. Þar eru þrír stórir bankar sem eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta í því að þeir gangi allir nokkuð vel. Þetta skýrist mikið til af því að í augum erlendra lánadrottna eru þeir "X-landsbankarnir" þ.e. (a) bankar sem svo vill til að eiga sama land fyrir heimaland og hafa þótt í útlöndum heldur áhættusæknari en þeim væri hollt og (b) þeirra heimaland, X, er þekkt fyrir hressilegar efnahagssveiflur og fyrir að hafa gengið full hratt um gleðinnar dyr að undanförnu. Gangi einum þeirra illa er það líklegt til að vekja ugg núverandi eða mögulegra lánadrottna og hafa áhrif á kjör þeirra allra.

Nú ber svo við í heimsfjármálunum að kjörin sem X-landsbönkum bjóðast eru mikið síðri en þeir hafa átt að venjast á meðan gleðin í X-landi og víðar stóð sem hæst. Þá eru góð ráð dýr. Ef bankarnir taka að sýna  lélega útkomu er hætt við að kjörin versni enn frekar og að tíminn lengist í að þau batni. Eitt af ráðunum sem X-landsbankarnir hafa til að halda sjó eða gott betur á meðan heimsfjármálin standa eins og þau standa er að dúlla dálítið við gjaldmiðilinn í X-landi. Þetta er þeim mögulegt sökum þess að ráðamenn í X-landi hafa búið svo um hnútana að þessi þrír bankar stýra að verulegum hluta gjaldeyrisinnflæði inn í X-land.

Bankarnir eru því í þeirri "athyglisverðu" stöðu að geta tekið stöður á móti gjaldmiðli X-lands án þess að þurfa að hafa af því miklar áhyggjur að einhver taki stóra stöðu með honum (af þeirri gráðu sem gæti ógnað þeirra mót-stöðu). Ástæðan er sú að þeir sjálfir geta að verulegu leyti skrúfað fyrir innflæðið með gjaldmiðlinum (a.m.k. það innflæði sem  varðar mest verðmyndun hans dag frá degi).

Þá vakna forvitnilegar spurningar: 
(1) Er æskilegt fyrir fólkið í X-landi að bankarnir séu í þessari stöðu til að dúlla svona (með eða á móti) við gjaldmiðil þess?
(2) Hafa bankarnir ábyrgð gagnvart fólkinu í X-landi að fara hóflega með þá aðstöðu sem þeim hefur verið sköpuð?

Undirritaður hefur fylgst nokkuð með gjaldeyrishreyfingum á Íslandi það sem af er þessu ári (eða eftir að heimsfjármálin fóru að hafa verulega neikvæð áhrif á fjármögnunarmöguleika íslenskra banka og annarra) og finnst þær benda til þess að íslensku bankarnir séu í svipaðri stöðu og lýst er í X-landi. Við bætist að það er erfitt að verjast þeirri hugsun að þeir hafi nýtt þessa aðstöðu varðandi verðmyndun á krónunni á heldur groddalegri hátt en getur samræmst skynsamlegum hugmyndum um siðferðislega ábyrgð gagnvart almenningi þessa lands með tilliti til þeirrar aðstöðu sem ráðmenn hafa skapað þeim. Því það er kunnara en frá þurfi að segja að mikið fall krónunnar á stuttum tíma (yfir 50% frá því í júlí 2007) veldur öllum venjulegum heimilum í landinu umtalsverðum vandræðum hið minnsta.

Í ljósi þessa fagna ég því Ögmundur að þú skyldir vekja máls á því á Stöð tvö í gær hvort bankarnir -við núverandi stöðu í heimsfjármálum- væru að fara ásættanlega með þá aðstöðu sem ráðmenn þessa lands hafa skapað þeim til að hafa áhrif á verðmyndun íslensku krónunnar. 

Með von um að umræðan um þessa aðstöðu bankanna og viðvíkjandi ábyrgð þeirra haldi áfram,

Árni