ERU ENGIN VIÐURLÖG VIÐ ÞVÍ AÐ EYÐILEGGJA EFNAHAGSKERFI ÞJÓÐAR?
Það sést lítið af þeim í kastljósum sjónvarpsstöðvanna núna
drengjunum sem voru að ráðleggja almenningi hvaða hlutbréf hann
ætti að kaupa til að verða ríkur. Þeir virðast líka forðast
kastljós fjölmiðlanna bankastjórarnir sem með vanþekkingu sinni og
kúltúrleysi bera ábyrgð á því að útrásin sem svo er nefnd fór í
vaskinn. Nú tala þeir ekki um samfélagslega ábyrgð sína þegar heilt
samfélag, heilt efnahagskerfi þjóðar, er á heljarþröm af því þeir
stóðu sig ekki í stykkinu. Þeir halda sig heima og láta lítið fara
fyrir sér í rándýru húsunum sem þeir keyptu og endurbyggðu
á besta stað í bænum. Ábyrgð þeirra felst í að senda fram á
völlinn hagfræðinga sem telja almenningi trú um að nú sé brýnast að
taka fimm hundruð milljarða lán. Stjórnmálamennina sannfærðu þeir á
einni nóttu í marz. Svona horfir þetta við mér Ögmundur.
Eftir einkavæðingu bankanna komust til valda í peningakerfinu menn
sem höfðu takmarkaða þekkingu á alþjóðlegum bankaviðskiptum. Þeir
áttu innhlaup hjá okurlánurum heimsins og slógu þar lán til hægri
og vinstri. Sameiginlega lögðu þeir til atlögu við
fasteignamarkaðinn sem mistókst og þýddi að bankarnir gátu til
allrar hamingju ekki hneppt nema eina kynslóð í fasteignaviðskipti
við sig til fimmtíu ára. Einn angi séríslensku bankakreppunnar er
að bankana vantar viðskiptavini til að standa undir óhagsstæðum
lánum sem útrásarsnillingarnir töldu óhætt að taka. Og nú vilja
þeir aðgerðir af hálfu Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Traustið
sem þessir flokkar njóta á alþjóðlegum fjármálamörkuðum í kompaníi
við bankana íslensku er slíkt að þrátt fyrir óskiljanlega
lagaheimild Alþingis þá getur þessi hópur ekki fengið lán við
viðráðanlegum vöxtum. Það er ekki "alþjóðleg lánsfjárkreppa" sem
veldur. Af hverju skyldi smáríki þar sem allt er í dúndrandi
sveiflu, þegnarnir ánægðir, þar sem bjart er framundan og þar sem
tækifærin blasa við í orkuhungruðum heimi, já, af hverju skyldu þau
ekki fá lán Geir og Ingibjörg, Sigurður og Smárason, Jón og allir
hinir ólfarnir? Ætli gamla góða orðið lánstraust skýri þetta
ekki. Þessi valdaflokkur nýtur ekki lánstrausts í útlöndum.
Er það ekki bara skiljanlegt? Fyrst settu hinir ábyrgu
efnahagslífið í uppnám, síðan skríða bankarnir oní
forsætisráðuneyti og fá tryggingu fyrir því að
Íbúðalánasjóður kaupi af þeim bréf og þegar fíkillinn þarf
meira þá vilja menn risalán - ábyrgðarmaðurinn er Samfylkingin og
Sjálfstæðisflokkurinn fyrir hönd barnanna okkar og barnabarna. Er
enginn sem treystir sér til að mótmæla þessu vistarbandi
Samfylkingarinnar? Sér enginn að bankastjórarnir eru ekki í neinu?
Kynslóðin á svörtu og gráu reinsunum brást öllum öðrum en sjálfum
sér. Það er afskaplega mikilvægt að þetta lið fái að kynnast því
sem Sjálfstæðisflokkurinn trommar upp með á tyllidögum, frelsi og
umfram allt ábyrgð einstaklinganna. Í hverju ætli ábyrgðin á því að
eyðileggja efnahagskerfi þjóðar liggi? Ætli það séu engin viðurlög
við því að eyðileggja efnahagskerfi heillar þjóðar og smeygja
vistarbandi sautjándu aldarinnar um háls nokkurra kynslóða fram í
tímann með fimm hundruð milljarða risaláni? Og fjölmiðlarnir þegja,
enda eiga þeir alla fjölmiðlana, ríkisvaldið og bakmenn
bankakerfisins.
Til hamingju með daginn,
Ólína