Fara í efni

HOW DO YOU SLEEP AT NIGHT?

Sæll Ögmundur.
Þegar ég var í framhaldsnámi í Uppsala kynntist ég sænska heilbrigðiskerfinu vel enda börnin ung. Það var ódýrt kerfi fyrir okkur námsmenn og þægilegt þótt ekki væri jafn auðvelt að komast að eins og í fámenninu á Íslandi. Í fyrrahaust fór ég svo til Danmerkur í meira nám og til að vera nær börnum og barnabörnum. Af þeim sökum hef ég kynnst danska heilbrigðiskefinu fyrir svo utan að nú er ég sjálf farin að þurfa á læknishjálp að halda. Það tekur tíma að komast að hér í Danmörku en mér hefur komið það þægilega á óvart að öll almenn heilbrigðisþjónusta er gjaldfrjáls og það sem meira er allir flokkar frá vinstri til hægri eru sammála um að þannig skuli það vera. Mér datt þetta í hug þegar ég las á netmogganum í dag haft eftir manni sem gekk í sama menntaskóla og við að það hefði þurft að skipta Framsóknarflokknum út fyrir Samfylkinguna til að geta komið á fót tryggingastofnun fyrir sjúkratryggða. Ég hef svolítið fylgst með umræðum um þetta mál á heimasíðum og Morgunblaðinu sem ég verð mér úti um hér ytra. Það sem vantar inní alla þessa umræðu er hvernig gjaldtakan á eftir að breytast í heilbrigðiskerfinu með auknum einkarekstri. Það er hin hlið málsins. Ef ég hef skilið umræðuna úr fjarlægð samþykkti Samfylkingin að setja Pétur Blöndal alþingismann yfir þann hluta málsins, eða með öðrum orðum það þurfti Samfylkinguna til að samþykkja að sá hægri sinnaðasti sjálfstæðismaður sem gengur laus verði nú látinn gera tillögur um þjónustugjöld í heilbrigðiskerfinu. Af hverju er þetta ekki gjaldfrjálst eins og í Danmörku? Hér fer ég sjálf til heimilislæknis og borga ekkert. Hún sendir mig svo til sérfræðings og þar borga ég ekkert. Sérfræðingurinn sendi mig í vetur í kviðarholsspeglun og viti menn kostnaður minn af öllu þessu var núll krónur. Vinkona mín sem þurfti að fá sömu þjónustu í vor á Íslandi þurfti að borga fyrstu 21.000 krónurnar sjálf. Það er alltaf verið að tala um hátt lyfjaverð á Íslandi. Er ekki rétt að fara að tala um lækniskostnaðinn áður en Pétur Blöndal bregður töfrastafnum á loft og gera kröfu til þess að sjúklingar greiði svipað fyrir þjónustuna heima og þeir greiða til dæmis fyrir hana hér? Það er einkennilegt að Samfylkingin skuli vera skilgreind nauðsynleg forsenda fyrir því að hleypa einkaaðilum í veski sjúklinganna. Er það misskilningur að Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, sú sem ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur sögðust vera hagsmunagæslumenn sjúkra, aldraðra og öryrkja, sé stýrimaður hjá Pétri Blöndal í nefnd stjórnarflokkanna? Sé svo hlýtur hennar vandi að vera ærinn. Enginn einn þingmaður hefur jafn oft sakað fyrrum samherja sína í Framsóknarflokknum fyrir alvarleg svik, lögbrot og fantaskap gagnvart fátæku fólki. Ríkisstjórnin er á öðru ári. Vegna hins fagra Íslands og þess sem við sjáuum við sjónarrönd má spyrja eins og tónlistarmaðurinn spurði:

A pretty face may last a year or two
But pretty soon they'll see what you can do
The sound you make is muzak to my ears
You must have learned something in all those years
Ah, how do you sleep?
Ah, how do you sleep at night?
(John Lennon)

Ólína