UM RÁÐSTÖFUN RÍKISFJÁR OG HÖMLULEYSI
Komdu sæll.
Ég vil þakka góða pistla sem koma sér beint að efninu, og ekki
sakar myndskýringin. Hér eiga þau ummæli Einars Ben ekki við að
"mitt sé að yrkja, ykkar að skilja." Já, já, nóg um það.
Ég hef stundum undrað mig á ráðstöfun ríkisfjár eftir að það er
komið til stofnanna sem eiga að yfirvarpi, að "njóta hins góða" af
einkamarkaðnum. Þetta er ekki einfalt mál og margar kenningar í
gangi um nytsemi þessa. Að mínu viti er almennt ágætt að ríkið
standi vel að baki vaxtarsprotum og er þá marga t.d. að finna í
ýmsum sjálfseignarstofnunum. Ég hef kannski meiri efasemdir um
framkvæmdir eins og Tónlistar- og ráðstefnuhúsið sem ríkið kostar
en rekstraraðilinn á, og eignast raunar við lok samningstímans.
Hvað gerist þá? Sjálfsagt er hér vel ígrunduð hagfræðiskoðun að
baki, og ekki eðlilegt að draga vafa yfir slíkar reiknikúnstir að
lítt athuguðu máli. Hins vegar má telja ljóst að hegðun ,,hinna
stóru" ríkisfyrirtækja, sem svo má kalla, hefur verið hneykslanleg
síðustu misserin. Má hér benda á kaupréttarsamninga REI og það
hversu sjálfsagt útvarpsstjóra þótti að hækka laun sín duglega og
leigja jeppa, um leið og hann varð ,,forstjóri". Sé það satt sem
hermt var í fréttum að fyrrum rektur Háskólans í Reykjavík
hafi þegið 30 milljóna króna eingreiðslu til að láta sjálfviljug af
störfum til að setjast á þing, þá þykir mér hömluleysið tekið út
fyrir allan þjófabálk. Töluverð umræða var um starfslokasamninga í
stjórnsýslukerfinu fyrir nokkrum árum. Meðal annars man ég eftir
dómi Hæstaréttar sem felldi úr gildi samning um starfslok kennara
við menntaskóla. Skólameistari hafði gert samninginn til að fá hann
til að hætta, en hann var ófær um að gegna sínu starfi vegna
veikinda. Samingurinn var um eins árs launað leyfi áður en hann
hætti. Þetta taldi Hæstiréttur að hefði verið ólögmætt sökum skorts
á lagaheimild. Þetta er viðmið dómstóla sökum strangrar kröfu
stjórnarskrár um fjárlagaheimild til ráðstöfunar ríkisfjár. En
víkjum aftur að rektornum fyrrverandi. Í háskólanum hans hefur ekki
þurft að búa við hinar stirðu og bagalegu ,,ríkisreglur". Raunar
man rektorinn góði það vel hve vel honum fór að tala einmitt um það
sem meginstyrk skólans. Oft bar það enda á góma á tyllidögum eða í
samsætum skilningsríks fólks. Nú má spyrja hvort skilningurinn sé
sá sami enn í dag meðal þeirra sem á hlýddu? Skólinn er rekinn að
meginstefnu fyrir ríkisfé og skólagjöld. Megintekjumeiðurinn mun
vera ríkisframlag eftir reiknistokk menntamálaráðherra. Þekkt er
góðlyndi þess hóglynda Björns Bjarnasonar í garð skólans. Er hér um
geypifé, almannafé, að ræða. Þessu til viðbótar nýtur skólinn
marvíslegra framlaga fyrirtækja og félagasamtaka. Ekki veit ég hvað
það er mikið. Loks eru tekin veruleg skólagjöld af nemendum
skólans, fyrir ókunnuga eru slík gjöld nauðsynleg að margra hyggju
til að efla alla -kennara- dáð og um leið skilning nemenda á því að
lífið sé ekki ókeypis. Skólagjöld í HR nema 137.000 kr. í laganámi
á yfirstandandi önn. Alls þyrfti 219 slík framlög til að jafna
eingreiðsluna til Guðfinnu. Má þetta virkilega? Ég segi ekki
annað.
Ófeigur í Skörðum