Fara í efni

FORSÆTIS-RÁÐHERRA OG FJÁRMÁLA-RÁÐHERRA BERA ÁBYRGÐ

Sæll Ögmundur
Samkvæmt greiningu Financical Times og öðrum haldbærum upplýsingum má benda fingri á sökudólgana, þá sem hafa komið þjóðarskútunni í strand. Við nánari skoðun er ekki hægt að kenna bönkunum um. Ekki heldur eftirlitsaðilum því öll viðspyrna þeirra var stöðvuð í fæðingu svo skútan ruggaði ekki um of. Ábyrgðin liggur ekki heldur hjá kónginum í Seðlabanka, ekki beint. Að vísu hefur sá aulabárður kostað Íslendinga æruna og kannski hundruði milljarða með röngum ákvörðunum og heimskulegu blaðri. Kóngurinn ber ekki raunverulega ábyrgð heldur þeir sem bera ábyrgð á honum og vernda hann. Þetta eru forsætisráðherra og fjármálaráðherra. Þetta eru mennirnir sem höfðu alla þræði í hendi sér, vissu hvert stefndi, vissu um ábyrgðir þjóðarinnar og bera ábyrgð á kónginum. Þetta eru sökudólgarnir sem komið hafa þjóðinni á kaldann klaka. Þetta eru mennirnir sem þarf að rétta yfir fyrir glæpsamlega vanrækslu þeirra og afglöp. Þetta eru mennirnir sem ber að segja af sér með skömm og biðja þjóðina afsökunar á hnjánum. Reyndar ættu allir alþingismenn að biðja þjóðina afsökunar fyrir að hafa vanrækt eftirlitshlutverk sitt og fyrst vaknað upp á strandstað.
Einar