FRAMTÍÐ ÍSLENSKRA BARNA

Það var slæmt fyrir íslenska fjölmiðla og þjóðina að Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, skyldi hjóla í Kaupþing og íslenska þjóð. Spuni hans og þjóðernisrembingur hefur nefnilega vakið af værum blundi smáborgaralegan rembing í landinu og hvað er hættuminna en að kynda svolítið upp í honum. Menn sleppa þá við að ræða efnislega um það sem miður fór. Á móti mér hér á Austurbrú býr athugul kona. Hún er hagfræðingur á eftirlaunum. Kona sem man eftir handritamálinu og er ótrúlega vel að sér um Ísland. Hún er "konservativt" af gamla skólanum sagði hún. Hún var ein þeirra sem unnið hefur Brussel og seðlabankanum danska á tímum Erik Hoffmeyers. Eitt kvöldið bankaði hún uppá hjá mér, með rauðvínsflösku undir hendinni. Fortæl om Island, sagði hún, þegar við vorum sestar yfir rauðvíni úr Netto. Og ég sagði henni það sem mér datt í hug um Ísland. Í því fólst að endursegja henni viðtalið við Davíð Oddsson, segja henni frá blaðamannafundum forsætisráðherra og því sem ég hef getað lesið í blöðunum sem mér hafa borist. Þegar ég lauk máli mínu varð löng þögn, en svo byrjaði hún að spyrja mig út úr. Henni fannst lítið til deilunnar milli Breta og Íslands koma, og hún kímdi þegar ég hafði sagt henni eitt og annað um Davíð Oddsson, en fyrsta spurningin var þessi: Hafa stjórnvöld fryst eigur þeirra sem eiga bankana? Ég taldi svo ekki vera. Hafa stjórnvöld sett eigendur bankanna, stjórnarmenn þeirra og aðra ábyrgðarmenn í farbann? Ég sagði svo ekki vera. Þá spurði hún hvort lög um hlutafélög væru ekki í samræmi við EES rétt. Jú, sagði ég. Þá bera stjórnir hlutafélaganna mikla ábyrgð, sagði hún, og bætti því við að þeir væru ekki í öfundsverðri stöðu. Eitt átti grannkona mín erfitt með að skilja. Hún skildi ekki hvernig fjármálaeftirlitinu sem hefði greinilega orðið á í messunni væri fengið alvald yfir bönkunum. Í Danmörku hefði þetta aldrei getað gerst svona. Hér hefðu íhaldsmenn skipt út fjármálaeftirlitinu og fengið hæstarétt Danmerkur til að setja niður óháða skuldaskilanefnd. Hún bætti því við að við aðstæður af þessu tagi hefði það tekið danska fjölmiðla fjóra til fimm daga að koma viðskiptaráðherra landsins frá völdum, ef forsætisráðherra hefði ekki þá þegar fórnað honum til að sýna alvöru málsins. Þegar við höfðum klárað úr rauðvínsflöskunni kvöddumst við með virktum. Ég þakkaði henni fyrir innilitið, en síðan hef ég ekki verið mönnum sinnandi. Mér finnst þjóðin mín bæði einangruð og illa upplýst. Hvernig getur Samfylkingin notað allan tíma sinni í að reyna að koma Davíð Oddsyni frá? Af hverju setur þessi fylking bankamálaráðherrans ekki fram hugmyndir um það hvernig ná má fé af furstum einkavæðingarinnar? Hvernig stendur á því að Samfylkingin vildi helst kasta sér í fang Alþjóðagjaldeyrissjóðinn? Á hún enga forystumenn sem sjá lengra en nef þeirra nær? Ætlar Samfylkingin að bera ábyrð á því að óreiðumenn sem svo eru nefndir geti flúið land og skilið eftir skattakröfu á hvert einasta mannsbarn sem nemur um fimm milljónum króna? Ó, þjóð mín þjóð, vaknaðu. Sjáðu hvaða byrðar er verið að leggja á þig til framtíðar. Þetta ættu íslenskir fjölmiðlar að vera að ræða nú. Ekki til að finna blóraböggla heldur til að láta menn bera ábyrgð í samræmi við lögin og þær grundvallarreglur sem Sjálfstæðisflokkurinn segist standa fyrir. Frelsi og ábyrgð einstaklinganna. Viðskiptafrelsið getur varla falist í fullkomnu frelsi til athafna sem byggist alfarið á því að láta almenning borga fyrir þetta frelsi hinna fáu? Eða er það þannig sem Sjálfstæðisflokkur Geirs H. Haarde skilgreinir sig? Þá er Sjálfstæðisflokkur Geirs öðru vísi en Sjálfstæðisflokkur Davíðs. Viðtalið við Davíð í Kastljósinu gekk út á þetta. Hann setti sig að vísu í hásæti en hann sagði efnislega: Á minni tíð var aflétt hömlum og innleitt frelsi, mistökin felast í því að óreiðumenn komu sama óorði á frelsið og alkóhólistinn brennivínið. Kerfið er ekki hugsað þannig að almenningur greiði fyrir óreiðumennina. Þessi hugsun felur í sér allt sem grannkona mín spurði um og hafði skoðun á. Önnur hugsun er svo sú að bjóðast til að leggja drápsklyfjar á komandi kynslóðir án þess að ná inn eignum auðmanna á móti. Sú hugsun klýfur Sjálfstæðisflokkinn. Önnur ástæða þess að fjölmiðlarnir fjalla lítt um þessi grundvallarmál og finnst siðferðilega réttlætanlegt að spjalla við sölumenn íslenska pilsfaldakapítalismans eins og Eddu, Ingvar, Sigurjón og co. án þess að þrautspyrja um ábyrgð þeirra sjálfra á gjladþrotinu er auðvitað sú að Bjöggarnir og Baugur eiga fjölmiðlana, sem ætti að taka í pant fyrir hugsanlegum ábyrgðum. Framkvæmdavaldsútvarp Páls Magnússonar og Þorgerðar telst ekki með. Við heyrum stundum um útlendinga sem staðnir hafa verið að því að stela flatskjáum, myndbandstækjum og hjólum. Þeir eru oftar en ekki settir í farbann. Hvað um þá sem bera ábyrgð á því að hvert sinn sem nýr Íslendingur lítur dagsins ljós í framtíðinni þá muna heyrast lítið klikk. Klikkið er ígildi fimm milljóna króna skuldaviðurkenningar. Ó þjóð mín þjóð. Við hjónum hlökkum til þegar iðnaðarráðherra fer að verja þessa framtíð íslenskra barna.
Ólína
 

Fréttabréf