Fara í efni

JAFNRÉTTISLÖG BROTIN Á DEGI HVERJUM

Sæll Ögmundur,
Hún Harpa ritaði á heimasíðuna þína um karla og konur í valdastöðum og ég er að vissu marki sammála henni. Mér finnst það fullkomlega óintressant hvort einhver er með 1700 þúsund á mánuði eða 1900 þúsund, og í raun móðgun við fólk að jafnréttisbaráttan snúist um hvort karl eða kona fái meiri ofurlaun. Hins vegar held ég að það sé aldrei mikilvægara en núna að láta jafnréttiskröfuna hljóma. Við sjáum það alls staðar í samfélaginu að konum er sópað til hliðar í umræðunni - nú er komið að alvöru málsins og konur eiga ekkert erindi við háborðið. Rödd kvenna heyrait varla í umræðuþáttum lengur og ríkisstjórnin brýtur jafnréttislög samviskusamlega á hverjum einasta degi við skipan í valdastöður. Þetta er til marks um það að úrelt sjónarmið ráði ferðinni, kraftar kvenna eru ekki nýttir og við verðum af fjölbreytileikanum í umræðunni. Það er ekki nóg að skipa tvær konur sem bankastjóra á meðan konur almennt eru ekki aðilar að ákvarðanatöku. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að stéttabarátta og kynjabarátta eiga samleið og mér finnst Harpa gera lítið úr jafnréttisumræðunni þegar hún talar um Thatcher sem táknmynd kvenna og pólaríserar umræðuna þannig. Þetta fjallar ekki um vanhæfar konur og hæfa karla heldur um jöfn tækifæri og að við öll komum að borðinu þegar ákvarðanir eru teknar. Sú krafa er aldrei mikilvægari en núna. Lifi jafnréttisbaráttan og stéttabaráttan!
Drífa