Fara í efni

HEFÐI ÁTT AÐ BYRJA AÐ NUDDA FYRR?

DV greindi frá því á dögunum að starfsmenn Fjármálaeftirlitsins hefðu fengið nudd í vinnunni í byrjun október, á þeim dögum þegar bankarnir hrundu hver á fætur öðrum. Ástæðan var sú, að sögn talsmanns FME, að starfsmennirnir hefðu unnið nótt sem nýtan dag vegna þeirra aðstæðna sem komið höfðu upp á fjármálamarkaði.En spyrja má; hefði ekki átt að bjóða upp á þessa þjónustu fyrr, 5-10 mínútna axlanudd á dag, ef það hefði mátt verða til þess að Fjármálaeftirlitið sinnti betur þeim verkefnum sem því bar fyrir hrunið? Það er nefnilega fróðlegt að skoða feril stofnunarinnar síðastliðið ár amk.

Aðeins einum og hálfum mánuði fyrir bankahrunið gaf FME bönkunum heilbrigðisvottorð - þeir stóðust allir álagspróf eins og fram kemur á vefsíðu stofnunarinnar 14. ágúst sl. Að öðru leyti tel ég rétt að vísa ekki frekar til síðunnar vegna strangra höfundarréttarákvæða og þar með hættu á innheimtureikningi frá Rithöfundasambandi Íslands. Vísast því hér til Viðskiptablaðsins sama dag þar sem gerð er grein fyrir forsendum álagsprófsins og túlkun forstjórans sem sagði af gefnu tilefni að eiginfjárstaða bankanna væri sterk og að þeir ættu að þola töluverð áföll.

Á hvaða grundvelli skyldi FME hafa byggt þessar niðurstöður sínar? Á eigin athugunum og rannsóknum? Á gögnum frá bönkunum sjálfum án þess að skoða þau af neinu viti? Aldrei hefði maður trúað því að eftirlitsstofnun með ríkar skyldur gæfi fjármálakerfinu heilbrigðisvottorð að óathuguðu máli. En ekki var annað að heyra á forstjóra FME í Kastljósi sjónvarpsins á fimmtudaginn að þetta væri einmitt vinnulagið. Grundvöllur hinna traustu og góðu álagsstimpla voru endurskoðuð gögn frá bönkunum sjálfum - ekkert annað var tekið með í reikninginn. Álagspróf FME virðast þannig hafa verið fremur til þess að fullnægja formsatriðum en skyggnast á bak við glimmertjöld bankanna sem varað hafði verið ítrekað við, jafnt af innlendum sem útlendum aðilum.

Í framhaldinu má velta fyrir sér því sem væri þó lygilegast af öllu en það er: Tók FME með einhverju móti þátt í ímyndarherferð bankanna og ríkisstjórnarinnar, innanlands sem utan, um styrk íslenska fjármálakerfisins þegar löngu var ljóst að bankarnir héldu sér gangandi á fölskum forsendum, maðkétnir af spillingu og í reynd í þrot komnir? Það getur ekki verið - ég trúi því eikki - þó að forstjóri FME hafi reyndar oftar en einu sinni rætt um „ímyndarkreppu" bankanna og nauðsyn þess að snúast til varnar óréttmætri gagnrýni.
Þjóðólfur