Fara í efni

HUGVEKJA Á FULLVELDISDEGI

Ég er mikill Íslendingur í mér og hefur þjóðernisvitund mín aukist til muna eftir að hafa verið búsett í Svíþjóð í 8 ár. Ég hef alltaf verið stolt af því að vera Íslendingur en nú get ég ekki orða bundist lengur yfir því hvernig komið er fyrir Íslandi og Íslendingum. Siðspilling hefur verið mjög mikil í íslensku samfélgi um mjög langt skeið í mismunandi (felu)myndum, þjóðin hefur verið heilaþvegin af kapitalisma svo gjörsamlega að mér verður bara hugsað til gömlu Sovétríkjanna hvað varðar heilaþvott af þeirri gráðu sem hann hefur náð á Íslandi. Og fégræðgin á sér ennþá engin takmörk, nú heyrir maður í íslenska útvarpinu þar sem Hagkaup hefur bæst í hóp peningaútlánastofnana sem þegar hafa sett landið á hausinn og býður upp á lán til þeirra sem ekki eiga fyrir jólunum. Þeir sem ekki eiga fyrir jólunum núna eiga ekki fyrir þeim heldur eftir áramótin því þá verður góðærið ekki komið aftur þannig að allir fá sína vinnu aftur og verðbólgan og vextir komnir niður. Svo nú hefur Hagkaup bætt sér í hóp þeirra sem geta sent Sýslumanni gjaldþrotakröfu á einstaklinga sem taka lán fyrir jólamatnum og getur síðan ekki borgað eftir jól. Hvað þarf að dauðrota Íslendinga oft til að þeir fari að skilja alvöru málsins. Ég upplifði í gær í fyrsta skipti allt mitt líf hræðilega niðurlægingu yfir að vera Íslendingur. Ég var stödd í verslunarmiðstöð í Malmö þar sem ég áhvað að fá mér lítinn skyndibita og gek inn á lítinn veitingastað og pantaði mat við diskinn, þá segir afgreiðslumaðurinn sem auðheyranlega var ekki sænskur en mjög hress og glaður "ertu dönsk?" Nei svara ég ég er íslensk. Þá var eins og ég hafi tilkynnt honum andlát því hann varð mjög alvarlegur og sorgmæddur á svipinn og sagði mjög hátt og skýrt á sinni sænsku "Ísland gjaldþrota, Ísland gjaldþrota". Allir sem þarna voru heyrðu þetta og ég óskaði mér niður úr gólfinu og reyndi að skipta um umræðuefni en afgreiðslumaðurinn var bersýnilega áhugasamur um þetta gjaldþrot svo ég neyddist til að svara. Ekki gat ég varið þetta gjaldþrot með neinu móti og síst af öllu þegar Íslendingar halda áfram með sama fólkið í brúnni og þeim sem söktu skútunni. Niðurlæging mín var algjör. Og til að bjarga öllu á að ganga í EU. Ein skyndilausnin enn. Ég man ekki betur en að hér á árum áður var hræðilegt það sem kallaðist Austurblokkin með öll völd á einum stað, Kreml. Og vestræn ríki lágu ekki á liði sínu til að rífa þetta kerfi niður. Svona mikil miðstýring væri aldrei til góðs og á endanum tókst heiminum að rifa þetta kerfi niður. Það leið ekki langur tími til að Vesturlönd byrjuðu að byggja sína Vesturblokk, EU og safna saman öllu valdi á einn stað, Brussel. Hver er munurinn? Ég get ekki séð hann. Ég er algerlega á móti öllu framsali á mínu landi eða auðlindum til annararra. Ég get átt samstarf með nágranna mínum án þess að gefa honum áhveðin völd á mínu heimili. Ég óska Íslendingum til hamingju med 1. des med von um að þeir vakni af sínum þyrnirósa svefni.
Vf.
Unnur