Fara í efni

TRAUSTS - VÍSITALA DESEMBER-MÁNAÐAR

Nú vitum við það - eftir viðamikla könnun - hvaða fólk nýtur mests trausts meðal þjóðarinnar. Niðurstaðan kemur ekki á óvart því þjóðareinkenni Íslendinga eru öðru fremur gamansemi, kaldhæðni, mikilmennsku brjálæði og heimska.

Í efsta sæti trónir að sjálfsögðu félagsmálaráðherrann Jóhanna Sigurðardóttir sem vann það einstæða afrek að gefa lánaþrælum Íbúðalánasjóðs kost á að lengja lán sín upp í 70 ár en það þýðir sáralitla lækkun á greiðslubyrði lántakenda en stóraukinn hagnað lánveitandans. Vafalaust hafa allir þingmenn sem á annað borð nenntu að sinna þingsetu sinni samþykkt þetta dellumak ráðherrans sem auðvitað er ranglega kynnt sem aðstoð við okkur, skuldsettu aumingjana. Tilgangurinn er hins vegar sá að styrkja lánadrottnana og gulltryggja að almenningur standi sig í stykkinu við að borga upp þjóðargjaldþrotið sem útásarliðið færði okkur af  sinni alkunnu rausn.

Lánstíminn vekur upp þær spurningar hvort taka eigi húsnæðislán við fæðingu eða færa eftirlaunaaldurinn upp í hundrað ár. Seinni kosturinn krefst þess reyndar að auka lífslíkur landsmanna en heilbrigðisráðherra ætti ekki að verða skotaskuld úr því þótt hann hafi ekki enn hitt félaga Gaddaffi eins og gefið var í skyn hér á síðunni með falsaðri mynd félaga Ögmundar.

Á þann sem trónir í næstefsta sætinu í traustinu er varla hægt að minnast á ógrátandi en það er stórbóndinn á Bessastöðum. Traustið sem þjóðin ber til hans getur vart byggst á öðru en að hann gegndi embætti áróðursmálaráðherra í ráðuneyti útrásarliðsins - hann var hin þindarlausa klappstýra óráðsíuaflanna sem með úthugsaðri svikamyllu kipptu stoðunum undan samfélagi okkar.
Þjóðólfur