Fara í efni

"JOKA KYMMENES VUOSI"

Sæll Ögmundur.
Fyrirgefðu. Ég hef haft öðrum hnöppum að hneppa síðustu mánuðina. Það skýrir þögn mína og ekki þunglyndi vegna frétta frá Íslandi sem eru ekki óalgengar hér. Ég hef áður minnst á grannkonu mín, ellilífeyrisþega og hagfræðing, sem starfaði bæði í danska seðlabankanum og á vegum danskra stjórnvalda í háborginni Brussel. Konuna sem fylgist með íslenskum málefnum, bæði beint og óbeint, með lestri blaða og sambandi við einhverja Íslendinga, sem hún hefur starfað með, en vill ekki upplýsa hverjir eru. Hún, grannkona mín, kynnti mig fyrir skemmstu fyrir starfsbróður sínum. Hann er sérfróður um finnsk málefni. Talar finnsku reiprennandi og þekkir fjármálalíf Finna eins og handarbakið á sér. Var til dæmis fenginn til að fylgjast með finnsku fjármálakreppunni sem reið yfir um það leyti sem Davíð Oddsson kom Sjálfstæðisflokkunum aftur til valda í íslenskri pólitík eftir stutt niðurlægingartímabil þess flokks. Þetta tókst Davíð, mestan part fyrir atbeina tveggja Jóna Alþýðuflokksins sáluga, Hannibalssonar og Sigurðs. Báðir "pensionistar" nú, hvor með sínu sniði, ef ég skil fréttirnar að heiman rétt. Grannkonan vildi að ég hittI þennan fyrrum starfsbróður sinn til að heyra hann tala um finnsku leiðina, milliliðalaust. Finnsku kreppuna. Þá ferð án fyrirheits, sem varðhundum valdsins, varð svo töm í haust. Þessi leið sem ég sá að íhaldssamir íslenskir blaðamenn og þeir sem vissu ekki betur mærðu fram eftir hausti eftir að íslensku bankarnir fóru á hausinn. Sumir átu gagnrýnislaust upp eftir talsmönnum ríkisstjórnar, Vilhjálmi Egilssyni, og Þór Sigfússyni að finnska leiðin fleytti okkur upp og út úr kreppunni fyrir næstu jól, eða svo. Mannstu Ögmundur þegar við vorum í MR? Mannstu hvað okkur þótti íhaldsdrengirnir vitlausir þá? Ég man alltaf eftir kjánahrollinum sem setti að mér þegar þeir voru að þenja sig með þykk gleraugu og lakkrísbindi, úff! Kjánar og völd. Hræðileg blanda. Ávísun á ragnarrök. Eins og að lesa íhaldsleiðara 2008, sem aldrei getur verið sannur af því hann fjallar fyrst og fremst um innantökur þess sem heldur á pennanum. Útsýnin takmarkast af eigin þrengstu hagsmunum hans sjálfs, eða hennar, eða pistlahöfundarins sem skrifar í þrídálkinn. En þarna sat ég með tveimur öldnum, en vel höldnum, dönskum hagfræðingum. Íhaldsmanni og alþýðuflokksmanni upp á íslensku. Þau hefðu getað verið Gylfi Þ. Gíslason og faðir þinn. Hvorugur þeirra hefði leyft sér að kalla annan mann kjána, eins og ég leyfi mér, en ég er ekki viss um að þau legðu lag sitt við þannig fólk. Sérfræðingurinn í finnsku leiðinni, sem íslenskir huldumenn vörðuðu fyrr SS flokkana í íslensku ríkisstjórninni, Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu, lærði finnsku, eins og fleiri hafa gert. Hann unnir Síbelíusi og finnskum bókmenntum, sem eru sveipaðar okkur hinum huliðshjálmi uns þær hafa verið þýddar, yfirleitt vegna norrænu bókmenntaverðlaunanna. Hann sagði mér hagfræðingurinn frá finnsku leiðinni, finnsku kreppunni. Hann talaði hægt, alvöruþrunginn, og hafði smá inngang að frásögn sinni. Hann sagði, Ólína. Það sem hagfræðingar hafa sagt um finnsku leiðina eru fyrst og fremst túlkun þeirra á töflum og tölum. Spádómar þeirra gengu helst eftir og urðu nákvæmastir eftirá, þá í besta falli sem sagnfræði eða skýring. Til að skilja finnsku leiðina þarftu að leita í finnskar bókmenntir sem fjalla um finnsku kreppuna. Og svo sagði hann mér söguna sem Nina Hankanen hafði sagt honum á bók og öllum þeim sem lesa sér til gagns á finnskri tungu. Nína þessi fæddist þegar við kvöddum MR Ögmundur. Hún var 23 þegar kreppan reið yfir í Finnlandi eftir að valdakerfið finnska missti sig. 37 ára skrifaði hún um kreppuna í Finnlandi. Hún segir frá drápsklyfjunum sem lagðar voru á herðar henni vegna "finnsku leiðarinnar" í 17 ár. Hún segir frá því hvernig hún brotnaði niður eftir að hafa haft til ráðstöfunar tíund af því sem hún þénaði árum saman. Ár eftir ár. Í frásögninni eru, segir hagfræðingurinn, þessi hófstillti tregi og þráin eftir árunum sem hún var rænd. Hann segir mér líka frá því að virtir finnskir geðlæknar haldi því fram, að á hinni finnsku leið hafi allt að 20 þúsund manns orðið úti, látist, langt um aldur fram. Sumir með því að taka eigið líf, aðrir sem urðu eiturlyfjum að bráð, eða létust af alvarlegri samfélagsgeðveiki. Hann talaði hægt og var alvöruþrunginn. Hvar ertu íslenski Hannes? - Þar sem peningarnir ráða í samskiptum manna fara móralslausir menn og siðlausir, segir Nína, höfundurinn. - Þú mátt aldrei láta blinda þig svo að trúa því að bankastjórar, viðskiptamenn, stjórnmálamenn, lögmenn, eða aðrir þeir sem alltaf fljóta upp, séu betri eða reynsluríkari, en við hin. Munurinn á okkur og þeim er að þeir seldu sál sína og siðferði fyrir völdin sem þeim voru fengin að launum. Gjaldið er að þeim er slétt sama um almenning, samfélagið, eða þess vegna alheiminn. Þetta segir Nína. Bókin hennar um finnsku kreppuna, og þá grýttu og ómanneskjulegu leið sem sérfræðingum er svo tamt að nefna sem útleið Íslendinga, finnsku leiðina hún heitir á sænsku: Tíunda hvert ár. Þeir sem einhverra hluta vegna þurfa að fara til Svíþjóðar ættu að ná sér í þýðinguna. Það hefur þýðingu. Og þarna sat ég hjá tveimur pensionistum, ekki íslenskum, og við þögðum öll, saman, eftir að Lundgren felldi talið. Hann spurði mig, alvarlegur í bragði, þegar við kvöddumst þetta kvöld: Hver ætlar að tala máli almenningins á Íslandi, sem þið hafði ákveðið að leiða í gegnum þennan finnska skóg? Ég hugsaði mig um, hálf orðlaus. Ég sagðist vonast til, að tími kjánanna væri liðinn.
Kveðja,
Ólína