Fara í efni

ÞAÐ ER VON ÞÚ SPYRJIR HVORT VERIÐ SÉ AÐ EGNA ÞJÓÐINA TIL UPPREISNAR!

 Það er makalaust ef fólk heldur að heilbrigðiskerfið, þá sjúkrahúsin, verði ódýrari og betur rekin af gróðapungum og bröskurum, en almenningi, eins og þú kemst að orði!  Fólk hlýtur að gera sér grein fyrir að ríkið muni greiða einkaaðilunum sem óþarfa milliliðum sem eru í þessu eingöngu til að græða peninga á sjúklingunum, sem er jú eðlilegt því enginn er í "bisness" án þess að hafa upp úr því!  Þess vegna verður heilbrigðisþjónustan mikið dýrari og við nögl skorin sem einkageiri, enda er þetta reynslan allstaðar í heiminum!  Það er ekki þar með sagt að heilbrigðiskerfið í almannaeign í höndum þess opinbera verði ekki að vera í stöðugri endurnýjun undir góðu eftirliti og góðri og faglegri stjórn, eins og þú hefur margoft bent á!

Eftir að hafa sagt ofanvert, þá sé ég ekkert rangt við að einkaaðilar stofni og byggi sín eigin sjúkrahús frá grunni, og ef þeir geta grætt eitthvað á því í samkeppni við sjúkrahús í eigu almennings, veri þeim þá að góðu.  Þá verður verkalýðshreyfingin að vera vakandi og gera skyldu sína gagnvarð starfsfólkinu sem verður alltaf að vera bundið tilheyrandi verkalýðsfélagi. 

Að ræna sameign almennings og setja rekstur eignanna í hendur einstaklinga sem millilið til að græða persónulega, á sjúkrahúsunum og heilbrigðiskerfinu, er allt annar handleggur og reyndar hreinn og beinn þjófnaður og stórglæpur, sem má ekki líðast!

Staðreynd er að verið er að ræna Hafnarfjörð sjúkrahúsi sínu, líklegast vegna þess að Hafnarfjörður er ekki undir hæl Sjálfstæðisflokksins og færa það til Reykjanesbæjar sem er undir hæl Sjálfstæðisflokksins.  Nú er ég ekki að segja að það sé ekki nauðsynlegt að hafa fyrsta flokks sjúkrahús til að þjóna öllum Suðurnesjum en það er óþarfi að gera það á kostnað almennrar heilbrigðisþjónustu í almenningseign og á kostnað annarra bæjarfélaga. Ögmundur, við erum að ræða einn stórglæpinn enn sem núverandi ríkisstjórn er að fremja, það er ekki nóg að vera búin að eyðileggja hagkerfi Íslands og setja núlifandi fólk, börn og barnabörn á skuldaklafa útlendinga, það má ekki einu sinni láta sjúkrahúsin og heilbrigðisþjónustuna í friði. Auðvita er þetta glæpur og Samfylkingin er síður en svo betri en Sjálfstæðisflokkurinn, hún lætur þetta viðgangast og er raunar þátttakandi og samsek í glæpnum!  

Ögmundur, það er von að þú spyrjir hvort verið sé að egna þjóðina til uppreisnar!
Úlfur