TRAUST HANDABAND

Þú veist hvaða álit ég hef á þér Ögmundur svo ég fjölyrði það ekki, en ég get sagt þér með fullri sannfæringu að Geir Jón Þórisson sem þú tekur í hönd á (http://www.ogmundur.is/annad/nr/4379/)er einnig einstakur sómamaður.  Þið reyndar passið vel saman, báðir einstaklega góðir drengir sem gera allt sem á ykkar valdi er, til að þjóna hagsmunum íslensku þjóðarinnar sem allra best! 
Auðvitað er það rétt að lögreglan er samherji fólksins en ekki mótherji þess.  Lögreglan er almúgafólk, skattgreiðendur og góðir Íslendingar eins og þú og ég sem veldur mjög erfiðu starfi vel og faglega sem er ekki minnst að þakka Geir Jóni og hins ágæta lögreglustjóra Stefáni Eiríkssyni. Fólk verður að gera sér ljóst að hin óvinsælu og ónýtu stjórnvöld ota lögreglunni fyrir sér og gaspra að baki henni yfir hógværa og friðsama mótmælendur, "þið eruð skríll" og "þið talið ekki fyrir þjóðina" og fela sig svo. Þó vitað sé að 70% þjóðarinnar styður mótmælin. Þetta innrætti ráðherranna espar auðvita mótmælendur og vekur upp spurninguna sem þú lagðir fram í einum pistli þínum, hvort meining ríkisstjórnarinnar væri að "egna þjóðina til uppreisnar"!
Þó ofbeldi mótmælenda hafi því miður bitnað á lögreglumönnum við eðlilegt starf sitt, þá er ég ekki viss um að sá ágæti árangur sem náðst hefur hingað til, þó ekki sé nóg komið, hefði náðst ef mótmælin hefðu ekki gerst hávær og jafnvel ofbeldiskennd. Þó ég hafi fulla samúð með lögreglunni sem er ekki síður okkar almúgans, en stjórnvalda, þá vil ég ekki svívirða þá sem beittu sér harkalega, of fljótt né níðandi. Þó einhverjir krakkar hafi gengið of langt, þá var meðal þeirra yfirvegað fólk sem var orðið dauðþreytt á kurteisum mótmælum, þar sem mikið var talað, jafnvel með mælsku og skörugleik í kuldanum og rigningunni, en ekkert virtist þokast til batnaðar.  Þetta minnti besta fólk á geltar umræður Alþingis, vel meintar, en engin hlustaði. Allt fyrirfram ákveðið af flokksforingjunum. Alls ekkert bar á stjórnarslitum og kosningum og fólk var farið að missa þolinmæðina og jafnvel vonina!  Þetta verðum  við að skilja!  Nú er komið að stjórnarslitum og það grillir í kosningar, en Ögmundur, það er ekki nóg! Mótmælin eru á mikið breiðari grundvelli en komið er! Davíð og hans klíka í Seðlabankanum situr enn sem fastast og ekki einn einasti meintur Stórglæpamaður / landráðamaður hefur verið gerður upp, þýfið tekið af honum og hann komin á bakvið lás og slá!  
Það er lítið gagn í nefnd sem á að rannsaka hvað olli bankahruninu, sem allir vita að mestu leiti, ef ekki á að nota þá rannsóknarnefnd sem stofnuð hefur verið, til að láta kné fylgja kviði í viðureigninni við glæpamennina sem fela þýfi sitt víðsvegar um heim og eru enn í fullum gangi við iðju sína! 
Ég vona að þetta gerist fljótt með friðsömum mótmælum! Ég vona að það þurfi ekki að koma til harðari átaka en með góðum ræðum, hávaða og appelsínugulum borðum og blómum, en ef svo yrði að í harðbakka slær, hlýtur að vera spurning með hverjum lögreglan mun standa.
Minnumst þess Ögmundur, að Séra Jakob Jónsson var spurður 1949 (vegna inngöngunnar í NATÓ)  nýkominn út úr Alþingishúsinu þar sem alþingismenn földu sig á bakvið breið bök lögreglunnar, hvernig honum litist á skrílinn sem var að gera aðsúg að alþingishúsinu, þá svaraði hann samstundis að "það væri mikið spursmál hvort meiri skríll væri innan eða utan Alþingishússins!"
Úlfur  

Fréttabréf