Fara í efni

KONAN Í KJALLARANUM HJÁ LÓU OG ÉG

Sæll Ögmundur.
Getur verið að ég hafi misskilið yfirlýsingu þína um Evrópusambandið? Getur verið að ég hafi misskilið einn af grunnþáttunum í því þegar Vinstri - hreyfingin grænt framaboð segist vilja ljá lýðræðinu nýtt innihald? Mig langar til þú svarir mér, ekki í kvöld, eða fyrir helgina, en fljótlega. Ég hef aldrei skilið hvernig menn geta deilt um fyrirbæri eins og Evrópusambandið. Fyrir mér er það eins og að deila um, hvort lýðræði er gott eða vont. Evrópusambandið er bæði hagsmunabandalag og hugsjón. Sumir fagna því sem ESB hefur fært launafólki í réttindum, aðrir sýta að sambandið skuli vera svona hallt undir stórkapítalið, og sumum finnst ESB ólýðræðislegt. Mér finnst það til dæmis og ég er algerlega andsnúin því að ganga í bandalagið og mun berjast gegn því með oddi og egg. En konan á neðri hæðinni er mér alls ekki sammála, og ekki hann Guðmundur á númer 34, að ég tali ekki um fátæku konuna í kjallaranum hjá Lóu. Þau eru öll meðmælt ESB. Við þekkjumst öll, við erum öll vinir og stundum fæ ég lánaða mjólk hjá Guðmundi á 34, ef búðin er lokuð og ég hef gleymt að kaupa inn. En við erum rífandi ósammála um ESB. Hvernig leysum við þann ágreining? Með slagsmálum? Með því að loka mig inni, eða kefla fátæku konuna í kjallaranum hjá Lóu? Nei, við gerum það með því að kjósa um aðild. Verði mín sjónarmið undir verð ég hryllilega fúl, en ég hætti ekki að tala við konuna niðri, eða Guðmund, eða konuna í kjallaranum hjá Lóu. Ég sætti mig við niðurstöðu meirihlutans, og ég mun ávalt berjast fyrir því að vilji hans sé virtur. Bæði utan og innan ESB og ekki síst, ef meirihluti þjóðar minnar, kysi mig inn í sambandið því þar þarf svo sannarlega að taka á og efla þá sem vilja nýtt lýðræði í Evrópu. Hvað finnst þér Ögmundur, er ekki hægt koma þessu ESB-dæmi inn í lýðræðislegt ferli sem við vinstri konur getum verið stoltar af, alveg burtséð frá niðurstöðunni?
Kveðja,
Ólína

Þakka gott bréf. Svarið rúmast í einu orði: Lýðræði. Þarna sé ég að við erum sammála. Verkefnið er ekki hvort heldur hvernig eigi að standa að því að forminu til að leiða málið til lykta í lýðræðislegri kosningu. Auðvitað á þjóðin að ráða í þessu sem öðru. Verkefni stjórnmálamanna er að tryggja að ráðrúm gefist til vandaðrar ALVÖRU umræðu um þetta mikilvæga mál.
Kv.
Ögmundur