Fara í efni

"VIÐ SKULDUM EKKERT"

"Sjálfstæðis-"flokkurinn er í dag mikið öfugmæli. Þeirra barátta gengur út á að koma Íslandi undir hælinn á útlendingum og fámennri klíku auðmanna. Útlendingarnir eru álrisarnir, alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og erlendir bankar. Þessi barátta á sér rætur í blindri trú á kapítalismann. Allir nema Sjálfstæðismenn hafa tekið eftir að kapítalisminn er hruninn og vilja nýja stefnu. Kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins mun því snúast um að búa til þá trú að í raun hafi ekkert farið úrskeiðis, við séum í vanda vegna ríkisafskipta á bandarískum húsnæðismarkaði. Til þess að sannfæra kjósendur, grípa Sjálfstæðismenn til ósanninda: Að í raun sé engin kreppa á Íslandi, að Ísland skuldi sáralítið, og að allt verði komið í lag eftir nokkra mánuði. Það eina sem við þurfum er að lúta stjórn AGS, gefa álrisunum aukinn afslátt og gefa auðmönnum aukin "tækifæri" í endurskipulagningu bankanna.

Tapararnir í þessu spili verður almenningur, sem mun skulda meira, mun borga aukna skatta í formi hárra vaxta og verðbólgu. Lygin verður stjörnuleikmaðurinn í kosningaliði Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum.  Mantran mun verða: Þetta var engum að kenna, enginn stal neinu, enginn svindlaði, við skuldum lítið, horfum til framtíðar, þjöppum valdinu áfram saman, fleiri álver, lútum ameríska valdinu og gefum auðmönnum aftur tækifæri. Stærsta hagsmunamál Sjálfstæðisflokksins er að sannfæra kjósendur um að vandamál þjóðfélagsins séu EKKI af pólitískum toga heldur tæknileg vandamál. En kreppan ER pólitísk, hún er vegna þeirrar lífsskoðunar að við græðum á auðmannavændi og kapítalismadekri. Þessi stefna mun að lokum eyða landinu. Það þarf að varast ósannindastefnu Sjálfstæðismanna sem nú er augljóslega í mótun. Þeirra stefna er landráðastefna og við höfum þegar fundið reykinn af réttunum. Ef þeir sigra í kosningum, getum við verið viss um að við verðum látin klára af disknum.
Hreinn K