Fara í efni

KJÓSA FYRST - SVO MÁ GEFA ÖNDUNUM!

Sæll félagi og vinur. 
Í dag er vika til kosninga, og enn hefur enginn flokkur sagt þjóðinni hversu skuldir þjóðarbúsinns eru miklar, hversu mikið okkur ber að borga af þeim, eða hvernig afla á tekna til þess að borga þær.  Það eru tvær ályktanir sem hægt er að draga af þessari þögn sem um þessi mál ríkja hjá flokkunum.  Annars vegar er ástæðan sú að þeir vita ekki hversu háar skuldinar eru og hins vegar að þeir þora ekki að upplýsa þjóðina um þær og til hvaða aðgerða þeir ætla að grípa til að ótta við að missa atkvæði.  
Ég er ekki viss um að allir stjórnmálamenn geri sér grein fyrir því  að laun láglaunafólks byggðust upp á yfirvinnu sem nú hefur alls staðar verið skorin niður, og  í framhaldi af því er mikið af því fólki að missa vinnuna.  Ofan á atvinnuleysi bætast við miklar hækkanir á skuldum heimilanna, himinháir stýrivextir og mikil lækkun á íbúðarverði.  Hvaða vit er í því fyrir fólk að vera að reyna að borga af þessum lánum? Er ekki bara mesta vitið í því hjá fólki að hætta að borga af þessum lánum og leyfa bönkununum og Íbúðalánasjóði að bæta þessum eignum við safnið sitt? Það eru engin úrræði til handa fólki sem komið er inn í þetta skuldafangelsi nema þessi gömlu góðu að lengja í hengingarólinni.  Ég þekki marga sem farið hafa þá leið að fá lánin fryst og þeir hafa allir séð eftir því. 
Og á meðan allt er í kalda koli í þjóðfélaginu er gamla sama rullan leikin í leikhúsinu við Austurvöll og leikararnir þar eru sanfærðir um það að þjóðin ætli að eyða tíma sínum laugardaginn 25 apríl í að fara á kjörstað til þess að framlengja veru þeirra þar.  Nei er ekki meira vit í að fara gefa öndunum á tjörninni brauð?
Með kveðju,
Sigurbjörn Halldórsson

Heill og sæll og þakka þér bréfið. Eins og fyrri daginn hefur þú á réttu að standa í flestu en um annað er ég þér þó ósammála. Það er rétt að við vitum ekki enn hve mikið við komum til með að skulda. En markmið númer eitt, tvö og þrjú er að hlaða eins litlum skuldum á ríkissjóð og nokkur kostur er. Málið nú er að grípa til markvissra aðgerða og forðast óðagot. Greiðsluaðlögunin gefur okkur svigrúm til að bæta síðar í úrræðin. Að þeim erum við að vinna. Fyrstu mánuðurnir eftir hrunið einkenndust af aðgerðleysi og óðagoti. Það er afleitur kokteill. Nú er þörf á markvissum aðgerðum og yfirveguðum. Þannig er nú unnið. Þegar upp er staðið er hægt að gera tvennt í senn, kjósa á laugardaginn og fara svo að gefa öndunum.
Kv.,
Ögmundur