Fara í efni

RADDIR VORSINS TALA

Sæll Ögmundur.
Jæja, nú hefur þjóðin talað á þessu fagra vori. Og hún talaði skýrt. Hún biður um velferðarstjórn, stjórn þar sem jöfnuður og skynsemi er haldin í hávegum. Þetta er ekki rödd flokksráðsins, eða flokkanna, þetta var rödd þjóðarinnar. Í þeim kór eru mun fleiri en í forystu flokka, en nú reynir á flokka og skilning þeirra á óskum þjóðar sinnar. Ykkur foyrstumönnunum ber að leggja eyrað varlega að jörðinni og hlusta. Þjóðin talar um velferðarstjórn. Ætlar VG að sjá til þess að hlustað verði  þegar kórinn syngur? Þjóðin fær ykkur ríkisstjórnarflokkunum auk verkefnið, að semja af skynsemi um ESB. Ykkur ber líka að taka tillit til þeirra óska. Völd ykkar hafiði frá þjóðinni, þessum þúsundum sem kusu ykkur nú fremur en frá 25 manna flokksráði. Hafðu það hugfast. Stattu vörð um þá lýðræðishefð sem þú hefur hingað til haldið fram. Þið þurfið að mynda ríkisstjórnina hratt, þið hafið ekki langan tíma. Ég held að þjóðin vilji fyrst og fremst sjá ykkur í vinnugallanum.
Annars er ég ánægð með útkomu VG. Það er nefnilega þannig að við erum sjö vinkonur. Í síðustu viku komum við saman. Allar ætluðum við að kjósa VG. Í gærkvöld horfðum við saman á leiðtogaspjallið í sjónvarpinu. Þá höfðu tvær okkar þegar ákveðið að kjósa Samfylkinguna og ekki VG. Ástæðan var yfirlýsing umhverfisráðherra um Drekasvæðið. Aðrar tvær misstu svo móðinn eftir yfirlýsingar fjármálaráðherra í þættinum um ESB. Ekki þar fyrir, hvorug þeirra er mikill ESB sinni og báðar eru sannfærðar um að þjóðin hafnar aðild að ESB fái rödd hennar að heyrast, nei það var yfirlýsingin um að flokksráðið myndi fella tillögu um aðildarviðræður sem fór illa í þær. Raddir vorsins hefðu geta orðið fleiri.
Ólína