Fara í efni

ÞAU ÆTTU AÐ ÓTTAST SJÁLFA SIG

Sæll Ögmundur.
Nú berast af því fréttir að sjálfstæðismenn óttist að það bjóði upp á spillingu, ef ríkið bjargar fyrirtækjum sem eru að sliga bankana vegna offjárfestinga og útrásar. Sumum fyrirtækjum, sem vafalaust eru í þeim 300 fyrirtækja hópi sem ríkisskattstjóri sagði að virtust íslensk, en væru að forminu til í eigu eignarhaldsfélaga sem oftast væru skráð á sólskinseyjum fjarri íslenskum skattaveruleika. Ætli sjálfstæðismönnum, eða réttara sagt nýrri forystu sjálfstæðismanna, sé ekki sjálfrátt? Eru þeir ekki búnir að átta sig á því enn, að þeir sem settu samfélagið á hausinn eru í framvarðasveit samtaka atvinnurekenda, hvort sem átt er við Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð eða Samtök verslunar og þjónustu? Þar liggja hugmyndasmiðjurnar, sem ráku áróðurinn fyrir því samfélagi sem byggt var upp með pólitískum stuðningi Sjálfstæðisflokksins á Alþingi. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem lagði línurnar um einkavæðingu bankanna. Það er Sjálfstæðisflokkurinn, sem ber ábyrgð á því skattkerfi sem bjó mörgum stuðningsmönnum flokksins skattalegan bólstað á sólskinseyjum suðrænum. Það gerðist ekki af sjálfu sér. Það gerðist af því Sjálfstæðisflokkurinn gekk erinda valdamikilla stuðningsmanna sinna og breytti löggjöf á Alþingi í þágu viðkomandi. Þeir segja sjálfstæðismennirnir að hætt sé við að örfáir einstaklingar fái að ráða því hvaða fyrirtæki fá að lifa og hver deyja, og þeir óttast spillingu. Sjálfstæðisflokkurinn, og raunar Framsóknarflokkurinn nú, skilur greinilega ekki, eða vill allavega að við skiljum hrun efnahagslífsins ekki þessum rétta skilningi. Það var spilltur Sjálfstæðisflokkur, það var hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins sem kom okkur í ógöngurnar, sem við rötuðum í. Ef forystumenn flokksins kynnu að skammast sín ættu þeir að lýsa því yfir fyrir kosningar að þeir ætli að hvíla sig á valdastólunum í næstu fjögur til átta árin af því einfaldlega að þeir eiga ekki rétt á valdastólum eins og þeir skildu við. Er á þessum tímamótum til of mikils mælst að Sjálfstæðisflokkurinn gefi út slíka yfirlýsingu? Óttist þeir spillingu, þá óttast þeir sjálfa sig. Annars er athyglisvert að fjölmiðlar láta órætt að fyrirtæki þau sem nýr formaður sjálfstæðismanna sleppti tökum sínum af í nóvember, fyrir fjórum mánuðum, hafa ekki lent í sérstakri skoðun Morgunblaðsins á afleiðingum hruns efnahagslífsins. Morgunblaðið er uppteknara af þeim sem áttu Essó, nokkru áður en það varð N1. En var ekki formaður Sjálfstæðisflokksins einn af útrásarvíkingunum? Var hann ekki fyrir hönd félags síns umsvifamikill kaupandi erlendra fyrirtækja einn, eða þá í kompaníi við til dæmis félög sem Gunnlaugur Sigmundsson eignaðist líka? Hvernig er til dæmis viðskiptasaga eignarhaldsfélagsins BNT frá 2007 og fram yfir hrun? Og getur verið að félög tengd N1 eða eignarhaldsfélögum sem standa þar að baki séu í hópi þeirra 300 stóru fyrirtækja sem ríkisskattstjóri segir að stofnuð hafi verið á aflandseyjum í því skyni að reka fyrirtæki sem virðast íslensk? Væri ekki fínt að upplýsa um allt þetta og tengslin við Glitni og stjórnendur Íslandsbanka nú? Allt þetta vildi ég vita, fyrir kosningar og ekki eftir.
Kveðja,
Ólína