Fara í efni

SAMLOKUR, SÍBROTA- OG TVÍBROTAMENN

Fréttablaðið greinir frá því að síbrotamaður hafi verið hnepptur í fangelsi eftir að Hæstiréttur staðfesti dóm undirréttar um 3 ára fangelsi. Svokallaður síbrotamaður á langan brotaferil og voru ákæruatriðin mörg, m.a. brot gegn valdstjórninni. Einn fjölmargra ákæruliða var fimmti liður. Hann hljóðar svo: "Fyrir þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 3. október 2007, í verslun 11-11 að Laugavegi 116 í Reykjavík, stolið Júmbó samloku og drykkjarjógúrti, samtals að andvirði kr. 451, með því að setja umræddar vörur í vasa á yfirhöfn og ganga rakleiðis út úr versluninni án þess að greiða fyrir þær.
Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í málinu er þess krafist fyrir hönd Kaupáss hf., kt. ..., að ákærði verði dæmdur til að greiða félaginu samtals kr. 451, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi og dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags."
Síbrotamaðurinn var dæmdur skv. fimmta lið ákærunnar sem hér er sagt frá, en bótakröfu vegna Júmbó samlokunnar var hafnað.
Nú geri ég ekki lítið úr síbrotum mannanna, en óneitanlega leitar hugurinn til hins sérstaka saksóknara sem átti að taka á hugsanlegum glæpamönnum, sem settu íslensku þjóðina á hausinn og töpuðu þess utan 90% af öllu því fé sem evrópskir bankar töpuðu á árinu 2008. Í mínum huga eru þeir tvíbrotamenn. Þeir brutu gegn þjóð og fullveldi þjóðar. Ákæruvaldið og réttarkerfið virðist ráða betur við síbrotamenn og Júmbó samlokustuld, en fall hagkerfis.
Kveðja
Hafsteinn