Fara í efni

UM LÁGKÚRULEGA STJÓRNMÁLAMENN FRJÁLS-HYGGJUNNAR

Margblessaður Ögmundur.
Ég fagna fjölgun í rannsóknarliðinu sem ætlað er að hafa hendur í hári 20 þeirra sem tilheyra íslensku mafíunni. En það er annað sem er forkastanlegt og snýr að ráðuneyti félagsmála. Þar er á fleti fyrir frjálshyggjumaður, Árni Páll, og því auðvitað vanhæfur sem slíkur að stjórna slíku ráðuneyti. Persónulegur metnaður ungra frjálshyggjumanna er hins vegar slíkur að lítið sem ekkert rúm er fyrir velferð eða hagsmuni þess fólks sem þessir menn þó gefa sig út fyrir að starfa fyrir.
Hér á ég við aðförina að atvinnulausu fólki á Íslandi sem nú er enn eina ferðina sprottin upp. Helsta úrræðið sem ráðherranum kemur til hugar er að setja upp njósnasveitir gegn atvinnulausu fólki sem ætlað er að sjá til þess að það fólk sem ekki hefur vinnu sé nú ekki að svindla á kostnað samborgara sinna sem enn hafa atvinnu. Nefndur ráðherra sýnist hafa minni áhyggjur af mafíuhyski og tækifærissinnuðum og spilltum stjórnmálamönnum fyrr og síðar sem leitt hafa þjóðina fram af hengiflugi. Raunar lykta flestar tillögur ráðherrans af vitleysunni í Pétri Blöndal og virka eins og endurómur af rödd þess víðkunna óvinar íslenskrar alþýðu. Flest ef ekki allt sem Pétur hefur lagt til í velferðarmálum miðar að sama marki; að klekkja á alþýðu fólks, að hygla glæpamönnum, og verja illvirki sem framin eru gegn þeim hluta samfélagsins sem hann telur að síst geti varið sig. En á það skyldi enginn treysta enda þótt fólk sé seinþreytt til vandræða að öllu jöfnu. Að félagsmálaráðherra skuli skipa sér í hóp með þvílíkum niðurrifsmönnum er auðvitað fyrir neðan allar hellur.
Miklu nær væri fyrir nefndan ráðherra að beita sér sem mest hann má gegn íslensku mafíunni, glæpamönnum sem stolið hafa hundruðum milljarða af þjóðinni og spilltum stjórnmálamönnum sem gert hafa glæpaverkin möguleg. Mælikvarðinn á manngildi ráðherrans er ekki síst fólginn í áskoruninni sem felst í því að taka heiðarlega afstöðu og standa með henni, hvort hann bognar undan valdi mafíunnar, eða hvort hann stendur með heiðarlegum þegnum þjóðarinnar og kjósendum sínum. Á þeim grunni verður ráðherrann dæmdur af þeim hluta almennngs sem heldur vöku sinni. Að enduróma ruglið í Pétri Blöndal mun þá sem endranær koma að litlu haldi. Svona áróður gegn fólki um meinta misnotkun á sjóðum almennings kemur ævinlega fram þegar beina þarf athygli almennings í aðrar áttir, svo hann skynji síður hvað helst brennur á þjóðinni. Síðan hleypur sumt fjölmiðlafólk til, vitnar til Noregs og annara landa, þar sem slíkar njósnasveitir sem áður voru nefndar, hafi skilað ljómandi góðum árangri og sparað ríkiskössum viðkomandi landa stórfé. Þetta er vægast sagt ömurleg lágkúra, einföldun og fáfræði í anda Péturs Blöndal. Megi hann og aðrir sem enduróma vitleysuna hljóta ævarandi skömm fyrir.
Með kærum kveðjum,
Kári