Fara í efni

GERENDUR OG GREIÐENDUR

Heimdellingar á fertugs og fimmtugsaldri, einn af pólitískum örmum Sjálfstæðisflokksins, stuðningsmenn óhefts viðskiptafrelsis og útrásarinnar, andstæðingar hvers kyns opinbers eftirlits, til dæmis með bönkum, auglýsa þessa dagana í Morgunblaðinu. Skilaboðin eru að stjórnarþingmenn núverandi beri ábyrgð á ICEsave málinu, og ekki sjálfstæðis- og framsóknarmenn sem lögðu grunninn að óförum þjóðarinnar og útfærðu pilsfaldakapítalisma sinn þannig að þjóðin situr uppi með meiri byrðar til lengri tíma en nokkur önnur þjóð í heimi, ef undan eru skyldar þriðjaheimsþjóðir sem hafa verið í heljargreipum hins alþjóðlega auðmagns í rúmlega 150 ár.

Stjórnmálaflokkarnir sem bera ábyrgð á hruninu, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, sem bera ábyrgð á drápsklyfjunum sem leggjast á okkur, börn okkar og barnabörn, tala þessa dagana eins og þeir hafi ekki komið nærri stjórn landsins um áratuga skeið. Og þið, stjórnarsinnar, þið talið um að leysa málin ICEsave málið eftir lýðræðislegum leiðum! Eru vinstri sinnar gengnir af göflunum? Ætlið þið að láta kjafta ykkur út af vellinum, í sturtu, og láta selja ykkur til gjaldþrota utandeildarliðs án þess að segja múkk? Hvaða merkingu haldiði að þetta lýðræðishjal hafi fyrir þá sem eru að flytja úr landi, eru fluttir, eru að missa húsin sín, eða þurfa að neita sér um sjálfsagða hluti eins og að kaupa áskrift fyrir börn sín inn á íþróttaæfingar, á námskeið, eða í tónlistarskóla?

Lýðræði er vissulega forsendan, en ábyrgðarmenn hrunsins, forsprakkar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins, eru alls ekki í lýðræðislegum samræðum við ykkur. Þeir vilja koma ykkur frá völdum til að geta forvaltað afleiðingum kreppunnar, sem þeir bjuggu til með hátterni sínu, á eigin forsendum sínum. ICEsave málið snýst í þeirra huga um að koma ykkur frá völdum.

Öll framganga forystumanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, allt þeirra tal, greinar, gapandi viðtölin og auglýsingar ungliðasamtakanna, hafa þetta eitt að markmiði. Hafiði eitthvað að sækja til fulltrúa flokkanna, sem bera ábyrgð á hruninu og hugmyndafræðinni sem skóp það. Hafiði eitthvað að sækja til fulltrúa Framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Höskuldar Þórhallssonar, eða Sjálfstæðisflokksins, þeirra Bjarna Benediktssonar og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur? Hvernig hyggist þið halda uppi lýðræðislegu samtali við þessa holdgervinga hrunsins? Þetta fólk vill koma ykkur frá völdum en þvælast ella fyrir því að uppgjör, á grundvelli hagsmuna almennings, fari hér fram.

ICEsave upptekur hugsun margra sem skiljanlegt er. Íslendingar hafa oftar en ekki viljað sleppa við að borga fyrir það sem þeir skilja ekki eða kjósa að láta sér ekki koma neitt við. Framlögin til þróunaraðstoðar eru dæmi um þetta. Íslendingum hefur í seinni tíma sögu sinni látið betur að vera þiggjendur, en greiðendur. Seinni heimsstyrjöldin, Marshall aðstoðin, hermangið og umgengnin um landið og náttúruauðlindirnar bera þess merki. Það er því ekki undarlegt eða skrítið að Íslendingar vilji ekki borga. En Íslendingar eru ekki bara ein heild. Íslendingar er hópur sem býr við mjög misjöfn skilyrði. Hvar er umræðan um það hvernig á að greiða fyrir pilsfaldakapítalisma Davíðs Oddsonar, Halldórs Ásgrímssonar, Finns Ingólfssonar og Geir H. Haardes? Eiga ekkjurnar og barnafólkið á strípuðum töxtunum að greiða jafn mikið fyrir óráðssíu einkavæðingarinnar og fólkið sem hirti milljónatugi út úr bönkunum, tryggingafélögunum, og lífeyrissjóðunum sem almenningur á? Eða á moldríka ekkjan að greiða meira? Eða þeir sem töpuðu milljörðum, sitja uppi sjálfir með milljónatugi eða hundruð milljóna, og fengu leyfi stjórnvalda til að senda reikninginn á almenning í landinu? Hvort er nú viturlegra fyrir vinstri sinna, að halda uppi þessari lýðræðislegu umræðu, þar sem haldið er fram hagsmunum almennings og það kerfi afhjúpað, skattalega, aðstöðulega og eignalega, sem útrásin, ICEsave skuldbindingarnar, fall bankanna og hugmyndafræði pilsfaldakapitíalismans skóp, eða ræða yfir kaffibolla almennt um gildi lýðræðis? Þið hafið völdin. Þið getið búið til nýja skattastefnu, nýtt velferðarkerfi, nýja hugsun og nýtt Ísland. Það verður hvorki gert með atbeina peningamanna úr röðum framsóknar- og sjálfstæðismanna, né í lýðræðisspjalli við Höskuld Þórhallsson og Bjarna Benediktsson á Alþingi. Þeir skilja hagsmuni, ekki hugmyndir, þannig hafa þeir að minnsta kosti talað undanfarið.

Og þú, og þið stjórnarliðar, hvernig haldiði að okkur verði við þegar við sjáum fréttamyndir úr viðskiptalífi dagsins, t.d. frá aðalfundi Icelandair, þar sem þeir tromma upp sem sessunautar, Gunnlaugur Sigmundsson og Einar Sveinsson, og allar fréttir af fyrirtækinu, og þessum tveimur lúserum, snúast um það hvort Sigurður Helgason, sem fékk feitan starfslokasamning, að ekki sé talað um eftirlaunin, verður formaður stjórnar fyrirtækisins eða bara almennur stjórnandi? Mér verður bumbult.

Og til hvers eruð þið að ræða þetta ICEsave mál við fulltrúa flokkanna sem bjuggu vandamálið til með afskiptaleysi sínu í opinberum embættum? Þeir eru ekki mótparturinn, nema náttúrulega menn telji að Íslendingar séu allir í sama báti og ættu að standa sameinaðir gegn hinum vondu útlendingum, hættunni að utan. Mótparturinn er Gordon Brown, Alister hinn elskulegi, Wouter Bos, Van der Hoeven, og Dossier Taken. Þetta er fólkið sem þið ættuð að vera að tala við. Þetta er fólkið sem las upp til agna grein Evu Joly á dögunum. Og Nicolas Sarkosi hann las hana. Og flokkssystkin íslenska forsætisráðherrans á alþjóðavettvangi, þau José Luis Rodríges Zapatero og Elena Salgado, þau lásu þetta örugglega skelfingu lostin. Þetta er fólkið sem þið ættuð að vera að tala við. Þannig standiði vörð um hagsmuni væntanlegra greiðenda, ella taliði málið gerandans. Eitt að lokum: Við erum alls ekki öll á sama báti.

Ólína