Fara í efni

VANDI FYLGIR VEGSEMD HVERRI

Nánasti samstarfsmaður forsætisráðherra gagnrýndi um helgina stórgóða grein Evu Joly um bága stöðu þjóðarinnar gagnvart kröfum, sem ríkisstjórnir nokkurra landa hafa gert á íslensk stjórnvöld, mestan part vegna þess að óvitarnir íslensk stjóprnvöld komu ekki í veg fyrir að nokkrir Heimdellingar byggju til peningalega svikamyllu. Nánasti samstarfsmaðurinn gagnrýndi málflutning Evu Joly efnislega, gerði lítið úr kunnáttu hennar, og dró í efa gagnsemi greinarinnar fyrir íslenska þjóð.
Sá sem fremstur er á sviði almannatengsla, Jón Hákon Magnússon, þrautreyndur og þekktur fyrir störf sín á alþjóðlegum vettvangi, slökkti með nokkrum setningum pent í þessari reykbombu aðstoðarmannsins. Þarf þar engu við að bæta og óþarfi að láta heimalning setja þjóðina í uppnám. Það sem hins vegar stendur eftir er að velta fyrir sér hvað er að gerast í forsætisráðuneytinu, í nærumhverfi forsætisráðherra. Af sjálfu leiðir að nánasti samverkamaður forsætisráðherra, aðstoðarmaður hans og talsmaður, verður að hafa í huga að í þessu tiltekna sambandi eru orð hans túlkuð sem álit, eða skoðun sjálfs forsætisráðherra.
Um leið og ráðgjafi forsætisráðherra sendi frá sér yfirlýsinguna um Evu Joly kom hann forsætisráðherra í vanda gagnvart þjóð sinni. Yfirlýsing um tjáningarfrelsi eða málfrelsi er í þessu sambandi aumt yfirklór. Yfirlýsing nánasta samstarfsmannsins rýrir traustið á forsætisráðherra og hún rýrir traustið á ríkisstjórninni og viljanum til að gæta hagsmuna þjóðarinnar. Það verður að gera kröfu til þess að forsætisráðherra biðji okkur, sem erum að kikna undan skuldum og höfum tapað milljónum í beinhörðum peningum, fyrir utan að þurfa að sitja uppi með siðferðilega ábyrgð á gjörðum annarra, afsökunar.  
Hafsteinn