Fara í efni

UM STÓRIÐJU OG SÉREIGNASPARNAÐ

Jæja kæri Ögmundur.
þá virðist Jóhanna hafa gert lokatilraun til að reka fleyg í samstarf flokkanna. Ekki svo að skilja að undirritaður sé neitt annað en mjög sáttur við tilkomu þeirra þúsunda starfa sem framkvæmdir þessar í samfélagi unnenda stóriðjuuppbyggingar koma til með að skila í okkar stórveiklaða samfélag á atvinnuuppbyggingarlegan mælikvarða skoðað. Aukinheldur virðist það viðblasandi að Svandís hafi talið að fram skyldi farið, geyst, með einhvers konar knésetningaráform, mitt ofan í grenjandi kreppu, þar sem heppilegt yrði nú að seinka ferli atvinnuuppbyggingar með ákvarðanatöku sem öllum er ljóst hver var. Ég heiti, Ögmundur, á þig að kanna hvort ekki megi minnka offar hennar og reyna að benda henni á að öllum kostum varðandi atvinnutækifæri beri að sinna með þeim mesta og bezta hraða sem kostur er á. Ögmundur, nú þarft þú að vera reiðubúinn sem aldrei fyrr, Grímsi er þreyttur, og allt sem hann lagði upp með í farteskinu í þessa helför hefur verið fótum troðið, s.s. skattaaðför að þeim sem hingað til hafa talist til hans einkaskjólstæðinga, umsókn að EB, og nú síðast hefur hugsanlegum verðandi arftaka hans verið sökkt í sýruna vegna hvatvísrar ákvörðunar varðandi hliðstætt mat á umhverfi. Kóngur á skákborði hvílíkra afleikja færi beint í sögina. Önnur saga; hvet þig og þitt fólk að gera fólki áfram kleift að nýta sér séreignarsparnað enn um sinn og ekki láta slitna á milli greiðslna til fólks eins og við blasir um komandi áramót, en þá eru þeir sem hófu töku um leið og unnt var búnir með þann kvóta sem þá var til úthlutunar. Ég sé í kringum mig bæði við leik og störf að þessir aðilar hafa getað með þessu móti staðið sína pligt, bara ekki slíta á milli svo að þessir aðilar sem njóta í dag, þurfi nú ekki að fara að bíða á meðan einhver nefnd fer að spekulera í einhverjar vikur eða jafnvel mánuði. Ef þessi vinna er þegar komin af stað þá lýt ég höfði í lotningu.
Kveðja,
Óskar K Guðmundsson, fisksali.