Fara í efni

FYRR OG NÚ

Sæll Ögmundur.
Lára Hanna Einarsdóttir setti nýlega inná síðu sína brot úr fréttum og Kastljósþáttum síðan eftir hið svokallaða hrun. Í einu video-brotinu eru kappræður á milli þín og Árna Páls Árnasonar og sögðu þær svolítið hvernig flokkur Samfylkingin er. Frá degi eitt eftir hrun þá hefur Samfylkingin sem er notabene annar flokkurinn í svokallaðri "vinstri stjórn" varið íslenska bankakerfið á seinustu árum. Það eitt og sér ætti að segja meðalgreindu fólki það hversu stórhættulegur þessi flokkur er.
Hægri stefnan hefur alltaf legið í evrópskum flokkum sem kenna sig við jöfnuð og þar er Samfylkingin ekkert undanskilin. Það var gaman að sjá þetta myndband þar sem Árni Páll var óbreyttur þingmaður í liði Samfylkingarinnar, maður á uppleið í sínum flokk, talaði með útrásarvíkingunum og þú þar sem þú varst eins og áður; niðurrifsmaður á íslensku fjármálalífi og alltaf á móti öllu.
Í dag sér fólkið í landinu þig við sama heygarðshornið annars vegar og Árna Pál hinsvegar talandi um mikilvægi þess að leiðrétta skuldir þeirra sem verst eru staddir. Hvað hefur gerst??? Það mætti halda að Árni Páll hafi fengið ráðherrastól! Hvernig finnst þér að starfa með bullandi frjálshyggjumönnum og stuttbuxnapésum í klæðum jafnaðarmannsins? Í lokin vil ég minna þig á loforð sem þú gafst góðri konu á flokksráðsfundi Vg sem var haldinn nýlega; þar sagðirðu að á þinni vakt yrði engri ræstingakonu sagt upp störfum á spítölum landsins. Nýjustu fregnir herma hinsvegar að einkageirinn sé tekinn við ræstingunum á Landsspítalanum sem og mötuneyti spítalans. Með bestu kveðjum eins og vanalega.
Ágúst Valves Jóhannesson

Þakka þér bréfið Ágúst sem reyndar er ekki alveg nýtt af nálinni. Fyrirgefðu töfina á birtingu. Staðreyndin er sú að ræstingar á Landspítalanum voru boðnar út fyrir löngu síðan en ég setti fram þá ósk að yrði skipt um verktaka missti enginn vinnuna. Með þessu var fylgst af minni hálfu.
Kv.
Ögmundur