ÚT ÚR ÖNGSTRÆTINU OG Í LÝÐRÆÐISLEGAN FARVEG!
Pistillinn þinn (Tíu staðreyndir um Icesave...) og bréf Ólínu
(Borgar þungaiðnaður brúsann?) hér á síðunni eru hárréttir.
Niðurstaða mín er samt þessi: Það verður að samþykkja Icesave á
þingi. Annnars fáum við Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk í stjórn
sem samþykkir Icesave í lítt breyttu formi og stormar síðan inn í
ESB. Sú ríkisstjórn yrði verri en þessi. Vandinn er sá að núverandi
ríkisstjórn segist fara frá ef Alþingi fellir Icesave. Þessi
tenging er ósvífin og heimskuleg en staðreynd. Þess vegna erum við
í öngstræti sem við komumst ekki út úr fyrr en málið hefur verið
afgreitt á þingi og Ólafur Ragnar forseti hefur vísað málinu til
þjóðarinnar. Þá er málið komið í þann lýðræðislega farveg sem það
verðskuldar. Úr þessu ásaka ég engan sem samþykkir Icesave á þingi
- þvert á móti er það eini skynsamlegi kosturinn einsog í pottinn
er búið - en bind þeim mun meiri vonir við forsetann.
Jóhannes Jónsson