Fara í efni

EKKERT HÆGT AÐ GERA?

Ég hef tekið eftir að menn skiptast í tvö horn varðandi hvernig á að túlka þau breyttu viðhorf sem birtast í erlendum fréttamiðlum síðustu dagana. Einvherjir ræða um að allt sé til vinnandi til að ná fram þó ekki sé nema örlítið betra hlutskipti en núverandi Icesace samningur færir okkur. Við megum ekki gleyma því að örlítið betri kjör skipta milljörðum og það þarf að skera mikið niður og skattleggja upp í slík göt. Svo eru aðrir sem líta öðruvísi á þetta. Eftir að hafa lesið dagblöðin í morgun sá ég að þær raddir eru nokkrar en ákaflega samstíga. Einn ráðherrann sagði í viðtali að þó það væri hægt að ná fram betra hlutskipti þá væri það ákaflega erfitt. Annar ráðherra skrifaði grein og sagði að við værum nú þegar með besta hlutskipti af öllum mögulegum því önnur væru verri. Svo var haft eftir þingmanni á vefmiðli að öll umræða sem beindist að öðru en núverandi samningi væri á villigötum. Mér finnst morgunljóst að þetta er hægt að draga saman í eina rödd sem segir: Ég get ekki, vil ekki og ætla ekki að ræða það. Það er kannski ekki við hæfi en þessi afstaða minnir mig helst á apana þrjá sem halda fyrir vit sér vissir um að þeir hafi hvorki heyrt, sagt né séð neitt misjafnt.
Árni V.