Fara í efni

HEFÐI ÞJÓÐIN SAMÞYKKT GULLFOSS-VIRKJUN?

Staðreyndum verður ekki breytt með frösum eins og "síð-sovésk viðhorf" sem ég veit ekki hvað þýðir eða "lýðræði í skömmtum". Þetta eru ekki frasar frá mér heldur þér Ögmundur og e.h. Ólínu. Það sem ég bendi á er að það er ekki samasemmerki milli fjölgunar á þjóðaratkvæðagreiðslum um lagasmíð Alþingis og réttlátara samfélags. Ástæðan er sú að almenningur kýs með "buddunni". Þú virðist trúa því að Kárahnjúkavirkjun hefði ekki verið reist ef málið hefði farið fyrir þjóðina. Ég er ekki sammála þér og ég er nokkuð viss um að virkjun við Eyjabakka hefði líka verið samþykkt í þjóðaratkvæagreiðslu og þess vegna Gullfossvirkjun. Vandamálið með þjóðaratkvæðagreiðslur á Íslandi er það að ákvörðun um slíkt er háð geðþótta forsetans. Hann bregður á þetta ráð þegar hann vantar athygli. Ekkert form fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur er til. Ég tel það slæman kost að fara með Icesave-málið í þjóðaratkvæði. En verði lögin felld úr gildi sé ég aðeins eina lausn á því sem er sú að Alþingi sem slíkt fái málið til úrlausnar. Og þá tel ég rétt að Alþingi kjósi nefnd til að leysa málið. Það er rökrétt niðurstaða að þá nefnd skipi eftirfarandi: Bjarni Benidiktsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Þór Sari og Ögmundur Jónasson.
Pétur

Þakka bréfið Pétur. Ég er nokkuð sannfærður um að þjóðin hefði aldrei samþykkt Gullfossvirkjun. Hitt finnst mér vera okkar meginágreiningur, að ég tel að sjálfsákvörðunarréttur þjóðar heiti því nafni vegna þess að hún ein - þjóðin - á hann.  Lýðræðið á ekki að skammta fólki á forsendum forræðishyggju.
Hvað varðar skipan samninganenfdar, þá ræðst gengi okkar ekki fyrst og fremst af því hverjir skipa hana - þótt mjög mikilvægt sé að hafa færustu sérfræðinga til rágjafar - heldur samningsstöðu okkar. Samningsstaðan hefur verið afleit. Sumt höfum við ekki ráðið við og kannski flest. En ég tel meginmistök okkar að hafa ekki gert meira til að bæta áróðursstöðu okkar og þar með styrkja samningsstöðu okkar manna. Ef staða Íslands er að batna er fráleitt annað en að við ræðum hvernig við getum nýtt okkur stöðuna málstað Íslands til framdráttar. Þar þurfa allir póitískir flokkar að koma sameigiinlega að málum.
Kv. Ögmundur