Fara í efni

HIN SÍÐ-SOVÉSKU VIÐHORF

Sæll Ögmundur.
Ég sagði í bréfi til þín á dögunum, að ég væri stolt af forseta Íslands og ég sagðist líka vera stolt af "þeim merku mönnum sem bjuggu til dynamiska stjórnarskrá fyrir okkur í öndverðu, skarpskyggnir lýðræðissinnar." Síðan þetta var skrifað hefur stolt mitt vaxið, geng ég nú með þanið brjóst, svo ánægð er ég. Bæði vegna frábærrar frammistöðu forseta í samtölum við erlenda fréttamiðla, en fyrst og fremst vegna samtals hans við fjölmiðla og þjóð sína á Bessastöðum. Þar útskýrði hann á einföldu máli og skýru hvernig stjórnskipanin er hugsuð, og hvernig hann túlkaði þann dýra grip sem honum var falið að standa vörð um. Viðbrögð forseta annars vegar og forystumanna framkvæmdavaldsins hins vegar staðfesta að enn er talsverður munur á viti og striti, ef þeim frænkum er ekki beitt saman.

Annað sem ég hirði ekki að fjalla um í smáatriðum eru viðbrögð sjálfskipaðra álitsgjafa úr röðum háskólamanna, afdankaðra og misheppnaðra stjórnmálamanna, og sumra stjórnmálamanna á þingi. Þau viðbrögð, til dæmis takmarkaður og praktískur skilningur á stjórnskipaninni og valdþáttunum, en umfram allt hvernig þeir spila saman, staðfesta enn og aftur hve veik hin akademíska íslenska hefð er. Þetta ætti að verða ágætum háskólarektor nokkurt áhyggjuefni. Aðkomumenn af öðrum menningarheimi gætu freistast til að halda að akademískir félagsvísindamenn, sumir hverjir, væru á mála hjá framkvæmdavaldi því sem skammtar þeim fé og að enn lærðu lögmenn í skólum landsins fyrst og fremst praktískar aðferðir innheimtulögfræðinnar.

Hið dynamiska í stjórnskipaninni er vitaskuld þetta samband forseta, Alþingis og þjóðarinnar. Þessi þrígreining, sem er auðvitað önnur er hin klassíska þrískipting ríkisvaldsins. Að mörgu leyti tryggir þetta samband forseta, Alþingis og þjóðar allt öðru vísi stjórnarskipan en er í sumum nálægum löndum. Hinir skarpskyggnu áar okkar, lýðræðissinnarnir sem útbjuggu stjórnarskrána, voru ekki sögulausir menn og þeir vissu vegna fámennis og einsleitni þjóðarinnar að henni var treystandi, t.d. að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir voru ekki að færa okkur stjórnarskrá konungsríkis, sem við vorum að slíta okkur frá, og þeir vissu aðstæðnanna vegna að ekki þýddi að bjóða upp á stjórnskipan Breta. Þess vegna auðvitað var búinn til þessi stjórnarskrárvaríant af stjórnarskrá margra þjóða í stjórnarskrá okkar, svona eins og ferskur andblær. Ánægjulegar eru útleggingar forseta á rétti þjóðarinnar, „Við - þjóðin". Það er fínn formáli og víðfrægur.

Mér finnst að alþingismenn ættu ekki að taka þann rétt frá þjóðinni sem þjóðinni var fenginn. Það er sjálfur rétturinn sem skiptir hér höfuðmáli, en ekki niðurstaðan úr atkvæðagreiðslunni. Að þjóðin, en ekki síður alþingismenn, gerir sér grein fyrir að hún, og þeir eru ábyrgir fyrir samfélaginu, sem hér er rekið og byggt upp. Þess vegna á forsetinn að hafa málskotsrétt. Þess vegna á hann að hafa valdið til að vera öryggisventill á Alþingi og þess einstöku, eða tilteknu gjörðir, eins og í afmörkuðu Icesave málinu. Vitaskuld snýst málið ekki um ríkisstjórnina, sambandið er forseti, Alþingi og þjóðin. Blaðamenn sem blanda þessu saman, eða stjórnmálamenn sem halda því fram í tilfinningarúsi augnabliksins að þjóðaratkvæðisgreiðsla um tiltekna samþykkt Alþingis snúist um auðnu ríkisstjórnar, hafa annað tveggja ekki sótt námskeiðin um stjórnskipunina sem skrifstofa alþingis heldur úti fyrir nýgræðinga, eða þá að kennararnir eru slakir. Kannski þyrfti forsetinn að boða þingheim til Bessastaða á haustin, áður en þing er kallað saman, til að eiga samtal við kjörna fulltrúa. Það mætti sjónvarpa þannig kennslustund, og svo gæti forseti líka haft námskeið fyrir Félag fyrrverandi alþingismanna, símenntunarnámskeið - virðist ekki veita af því.

Einn lögspekingurinn lét hafa eftir sér að forsetinn ætti ekki að vera að þvælast fyrir ríkisstjórninni. Einn félagsvísindadoktorinn sagði að það væri ekki hægt að búa við ef taka þyrfti erfiðar ákvarðanir að forsetinn gæti skotið málum til þjóðarinnar sem hafnaði samþykktum Alþingis. Lögspekingurinn hrærir saman sambandinu Alþingi, forseti, þjóðin, og félagsvísindadoktorinn gerir sig sekan um að niðurlægja þjóðina þar sem hann situr í turni sínum.

Hvað felst í því þegar stofnanaveldið sameinast í vitleysunni og vill ekki fá að vita milliliðalaust hvað þjóðin vill og hvað hún kýs, til dæmis í Icesave-málinu? Hvers konar viðhorf eru það sem fram koma gagnvart þjóðinni, ef menn vilja taka frá henni réttinn til að bera ábyrgð á örlögum sínum? Mér finnst það vera síð-sovésk viðhorf þess sem allra síst ætti að leyfa sér mannfyrirlitningu af þessu tagi. Viðhorfið sem fram kemur í afstöðu þessari undirstrikar enn frekar að ákvörðun forseta um þjóðaratkvæði er rétt, og kannski er ákvörðun forseta dýpri en okkur grunar. Kannski er það einmitt viðhorf stofnanaveldisins gagnvart þjóðinni sem forseta finnst rétt að menn ræði í bland við annað. Kannski finnst honum líka að með samfélagsþróun undanfarinna ára hafi orðið til stöðugt dýpkandi gjá milli þings og þjóðar, milli almennings og stofnanaveldisins, sem stefnir samfélagsgerðinni í voða til lengri tíma litið. Hann hélt ef til vill að það Alþingi og framkvæmdavald sem varð til í fyrra sæi þessa gjá og vildi moka oní skurðina, búa til betra og lýðræðislegra samfélag. En svo leit hann yfir sviðið. Í stað Halldórs og Davíðs voru komin Steingrímur og Jóhanna, stjórnarandstaða á móti öllu, stjórn sammála öllu burtséð frá efni máls. Forseti missti sig um tíma, lét berast með þungum straumi kapitalísmans og peninganna, og varð uppvís að mörgum axarsköftum, en rakarasonurinn að vestan komst heim aftur og stillir sé upp með þjóð sinni gegnt stofnanaveldinu - gegn hinum upplýstu - gegn hinum síð-sovésku viðhorfum til sjálfrar þjóðarinnar.
Ólína