NIÐURSTAÐA ÞJÓÐAR ER ALLTAF RÉTT!
Sæll Ögmundur.
Þakka þér fyrir greiningu þína á lýðræði og forræði. Þessi umræða
er ákaflega mikilvæg og hefði mátt verða fyrirferðarmeiri þá 18
mánuði sem liðnir eru frá efnahagshruninu. Lýðræði, eða
sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar, þurfum við að ræða samhliða
Icesave málinu, hvernig við byggjum hér upp réttlátara þjóðfélag
sem er bæði opnara og lýðræðislegra en varð til undir forystu
þeirra sem nú nálgast eftirlaunaaldur.
Liður í þessu er sparkið sem forsetinn gaf okkur með því að hafna
því að staðfesta ríkisábyrgðina sem felst í Icesavelögunum. Rétt
okkar óbreyttu þarf að þróa og gera virkari. Fyrst fengum við ekki
að kjósa af því við áttum ekkert, og af því við áttum ekkert höfðum
við ekki vitið til að bera ábyrgð á atkvæði okkar. Þannig
skilgreindi hin nýja stétt borgaranna lýðræðið á sinni tíð. Svo
fengu karlar atkvæðisrétt, en ekki konur, meðal annars af því
ráðandi stétt ákvað að ákvarðanir um þjóðmál kæmi konum ekki við.
Atkvæðisréttur var meira að segja svo takmarkaður, að kosningar
voru haldnar í heyrandi hljóði og menn þurftu að greiða atkvæði á
opnum fundum með handauppréttingum. Það var líka í raun
kúgunarfyrirkomulag þeirra sem settu reglurnar. Leynilegar
kosningar voru því byltingarkennd breyting í
sveitarstjórnarkosningum. Það hefur alltaf verið valdastéttinni í
hag, og þeim sem ráða, að takmarka sem mest þeir mega lýðræðislegan
rétt þjóðarinnar og einstaklinganna.
Ferskt dæmi er þegar forystumenn ríkisstjórnar krefjast þess að
allir ráðherrar styðji skilyrðislaust öll mál sem fulltrúar
framkvæmdavaldsins bera fram þótt ríkisstjórn sé fjölskipað
stjórnvald, jafnvel þótt alþingismönnum sé gert að vinna
drengskaparheit að stjórnskránni og að greiða, samkvæmt henni,
atkvæði eftir því sem samfæringin býður þeim og alls ekki öðru.
Þetta þurfum við þolendur hrunsins að hugsa um. Þetta held ég að
séu hin dýpri rökin sem forseti Íslands hafði í huga þegar hann
vísaði Icesave til okkar, þjóðarinnar. Hann vill bæði benda okkur
og kenna. Þjóðaratkvæðagreiðsla er æðsti réttur hverrar þjóðar.
Æðsti réttur þjóðar getur aldrei orðið rangur. Niðurstaða þjóðar er
alltaf rétt, af sjálfu leiðir. Það getur vel verið að mér, miðaldra
konu í Fossvoginum, finnist niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu
hræðileg, en ég get aldrei tekið mér það orð í munn að hún sé röng.
Það hugtak á ekki við í þessu sambandi. Þess vegna tala ég um hin
síð-sovésku viðhorf þeirra, sem telja sig þess umkomna að nota
hugtök eins og rétt og rangt þegar þjóð þeirra hefur talað. Nú á
þjóðin að fá að tala. Hennar er rétturinn og hennar er ábyrgðin,
eins og forsetinn sagði. Minn er rétturinn og mín er
ábyrgðin.
Haltu áfram þessari umræðu Ögmundur. Í lýðræðisumbótum er fólgin
róttækni dagsins. Þar fyrir utan er greinilegt að beint lýðræði er
sýnist mér, sá varnagli sem þarf til ef fulltrúalýðræðið á að halda
velli. Ógöngur okkar, efnahagshrun, fálmkennd viðbrögð við þessu
hruni, niðurstaðan úr Icesave-samingunum, allt á þetta upphaf
í klíkusamfélagi fulltrúalýðræðisins, þessu samétna
hagsmunabandalagi þess sem ræður í krafti valds sem hann tekur sér
á þeim grundvelli að hann eða hún viti betur en við sem kjósum á
fjögurra ára fresti.
Ólína