ÖMURLEG SKRIF

Sæll Ögmundur....
Þau eru ömurleg bréfin Péturs og Kristjóns á vefsíðu þinni.  Báðir aðskilja þeir ekki þjóð og ríkisstjórn þegar um er að ræða Svía og hvorugir virðast skilja að það er djúp gjá á milli íslensku þjóðarinnar og íslenskra einstaklinga sem athafna sig í útlöndum og hafa stórskaðað íslensku þjóðina með lygum, þjófnaði og undirferlum. Jú, það má sannarlega kenna alþjóðasinnum, fjárglæfarmönnum, einkavinavæðingarsinnum og auðvaldsþjónum um óhamingju Íslendinga, en það má ekkert síður kenna núverandi stjórnvöldum um hryggileg afglöp í Iceslave málinu og endur-einkavæðingu bankanna og fjármálafyrirtækjanna ásamt sölu orkufyrirtækja þjóðarinnar til útlendinga, svo aðeins fáein afglöp séu nefnd. En við erum þá ekki að ræða um saklausa íslensku þjóðina, við erum að ræða um einstaka afglapa og glæpamenn, sem enn leika lausum hala í þjóðfélaginu!   Íslenska þjóðin er ekki glæpaþjóð né hryðjuverkaþjóð eins og Bretar hafa kennt henni um að vera!  Málið er í tilfelli Iceslave, að persónulega telur sá er þetta ritar að íslenska þjóðin skuldi ekki neitt, allavega ekki fyrr en hlutlaus alþjóðadómstóll dæmir að svo sé!  Stóriglæpurinn er að núverandi stjórnvöld og handlangarar hennar frömdu hræðileg afglöp við að skrifa undir Iceslave fjárkúgunina. Það var ekkert um samnings viðræður að gerast, það virðist að svo kallaðir samningsmenn Íslands hafi bara ritað niður það sem Hollendingar og Bretar heimtuðu og skrifað undir, með samþykki fjármálaráðherrans sem berst nú í bökkum við að verja afglöp sín og ríkisstjórnar sinnar.  Hvort menn hafi gefist upp frammifyrir ófyrirleitni Hollendinga og Breta vegna leti eða að þeir voru ekki starfi sínu vaxnir, skiptir engu máli, hugleysið, getuleysið og  svikin við íslensku þjóðina eru þau sömu!
Þú ræðir réttilega um að þjóðir Evrópusambandsins, EES, og NATO leggjast á eitt sem handrukkarar Hollands og Bretlands ríkisstjórna, til að eyðileggja íslenskt efnahagslíf í von um að ræna náttúruauðæfum landsins þegar við verðum gjaldþrota og allslaus. þetta er rétt!  En það er ekki síður rétt að núverandi íslensk stjórnvöld hafa gerst sömu handrukkarar og þjónar kúgaranna! Þessu megum við ekki líta framhjá né gleyma!
Ögmundur, við verðum að einbeita okkur að hafa hendur í hári fjárglæpamannanna og gera upp illafengnar eignir þeirra. Síðan eftir að þeir hafa afplánað 10 til 20 ára fangelsisdóm, má afhenda Hollendingum og Bretum þá, því við þá eiga þeir sök, ekki við íslensku þjóðina!
Ögmundur, ég vil þakka þér fyrir manndóm þinn og hugrekki, og þó sérstaklega fyrir að vera góður og sannur Íslendingur, sem kemur þjóðinni að liði á ögurstundu!  Ég þakka einnig háttvirtum forseta lýðveldisins fyrir hárrétta ákvörðun að láta þjóðina sjálfa dæma um hvort hún ætli að láta pína sig af erlendum fjárkúgurum og hjálpasveinum þeirra, að skuldbinda sig og niðja sína til að greiða það sem henni ber ekki að greiða!
Kveðja,
Helgi   

Fréttabréf