Fara í efni

UM STAURBLINDAN VANANN

Sæll Ögmundur.
Gleðilegt nýtt ár og vonandi frjótt og farsælt fyrir hönd og hug allra landsmanna. Ég er sammála þér að ég hef aldrei skilið það undarlega samasemmerki sem flestir stjórnarliðar hafa viljað setja á milli Icesave og áframhaldandi stjórnarsetu. Í þeirri hugsun felst einhver alvarleg meinloka. Græðgis-kapítalismi undangenginna 10 ára er að hrynja út um allan heim. Þetta veit venjulegt fólk -út um allan heim- að er staðreynd. Því þurfum við að byrja að hugsa upp á nýtt, óháð múlbindingi flokks-skírteina, óháð blindum sérhagsmunum. Margar viðteknar stofnanir ríkisins og valdakerfisins hafa sofið á verðinum. Það er hverjum hugsandi manni augljóst. Þær verða að vakna og spyrja sig gagnrýninna spurninga um hvað þeim var ætlað að sinna, hver hlutverk og markmið þeirra áttu og eiga að vera. Þessar stofnanir eru td. Alþingi, stjórnmálaflokkar, dómstólar, stofnanir atvinnulífsins (þmt. SA og ASÍ), fjármálastofnanir og síðast en ekki síst fjölmiðlar. Þangað til þessar stofnanir, hinar hugmyndafræðilegu valdastofnanir, vakna af sofandahætti sínum, getum við ekki annað en sett spurningamerki við tilverurétt þeirra. Við erum hvorki meira né minna en að spyrja um sjálfa hornsteina lýðræðisins. Við þurfum að losna undan heljargreipum hins steinrunna og staurblinda vana. Við þurfum að leyfa hinum frjóu hugsunum og gagnrýnu spurningum að leika um hornsteina lýðræðisins. Annars komumst við hvorki lönd né strönd. Hér þarf að rétta fram opnar sáttahendur, af fullum heilindum og í opinni og frjálsri rökræðu, þjóðinni allri til heilla. Og hvað Icesave varðar, er það mitt mat, að hver heilvita maður ætti að átta sig á því, að við eigum ekki að borga skuldir einkaaðila. Öll önnur hugsun um það er trénuð í steinrunninni blindu sinni og hugsanaleti. Sú hugsun gengur alls ekki til frjórrar framtíðar.
Pétur Örn Björnsson