Fara í efni

HVER ÆTLAR AÐ BORGA FYRIR TVÖFALT HEILBRIGÐIS-KERFI?

Ég vil vekja athygli þína Ögmundur og lesenda síðunnar á umfjöllun á vefmiðlinum eyjunni á fyrirhuguðu einkasjúkrahúsi á Keflavíkurflugvelli. Ég er algerlega sammála vanraðarorðum þínum sem fram koma hér á síðunni og í greinaskrifum í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu þar sem þú segir að þetta nýja fyrirkomulag ógni því kerfi sem hér er í heilbrigðiskerfinu, sbr. eftirfarandi  í Fréttablaðsgrein þinni: „Um er að ræða hagsmuni sjúklinga, starfsfólks, skattgreiðenda, almannaþjónustunnar - og sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Sú staða gæti nefnilega skapast á aðhalds- og niðurskurðartímum, að til varnar almannaþjónustunni yrði nauðsynlegt að draga úr framlagi hins opinbera til einstaklinga sem í dag starfa sjálfstætt og þar með raska þeirri blöndu sem við búum við. Þannig gætu áform um stóraukinn einkarekstur snúist upp í andhverfu sína - atlögu að sjálfstætt starfandi sérfræðingum sem hingað til hefur verið sátt um."
Jónína Bjartmars, fyrrum heilbrigðisráðherra, hitti líka naglann á höfuðið þegar hún segist hafa "efasemdir um þjóðhagslegt gildi þess að koma á fót einkasjúkrahúsi/húsum  á Íslandi.  Meðal annars vegna þess að ég tel  það fyrirsjáanlega fyrsta vísinn  að tvöföldu heilbrigðiskerfi."
Ég hvet til umræðu um þessi mál. Hver ákveður að hefja þetta ferli og þessa ráðstöfun á almannafé ( fram kemur að peningarnir koma úr ríkissjóði - eða hvað?).
Einhverjum kann að koma spánskt  fyrir sjónir að læknir í einkapraxís skrifi þessar línur. En ég er skattborgari auk þess sem ég er sammála þér Ögmundur að þetta ógnar mínum starfsgrundvelli eins og þú réttilega bendir á!
Sjálfstætt starfandi læknir
p.s. Læt fylgja hér slóðir af eyjunni:
http://eyjan.is/blog/2010/02/22/fyrrverandi-radherra-um-einkasjukrahusid-throunarfelagid-brytur-thjonustu-samning-vid-rikid/

http://eyjan.is/blog/2010/02/22/oroi-i-vg-vegna-fyrirhugads-einkaspitala-birtist-a-vefsidu-ogmundar-hvernig-gatum-vid-latid-plata-okkur-svona/