Fara í efni

ICESAVE

Það var þjóðinni mikilvægt að samþykkja ríkisábyrgð á Icesave-samninginn strax eftir að hann var gerður. Samningurinn er, miðað við aðstæður, ásættanlegur. Þetta var ekki gert heldur hóf Alþingi að semja sjálft einhliða við sjálft sig og tefja málið eins og hægt var. Gunnlaugur H. Jónsson hefur komist að þeirri niðurstöðu að Íslendingar tapi 75 milljörðum á mánuði meðan Icesavemálið er óleyst, möo landsmenn eru þegar búnir að tapa meira fé á að fresta málinu heldur en þeim bar að greiða samkvæmt samningnum. Það kunna að finnast menn, sem hafa barist gegn samningnum á ekótrippi og eða af barnaskap, sem halda því fram að útreikningur Gunnlaugs sé ekki réttur. Þessir menn verða þá að hrekja þetta með rökum og sýna fram á að útreikningurinn sé rangur. Í þessu máli er ekki við Bjarna Ben II eða Sigmund Davíð að sakast. Þeir fara fyrir stjórnaranstöðunni og vilja klekkja á ríkisstjórninni með öllum tiltækum meðulum. Þeim er sama um hag Íslands meðan þeir eru í stjórnarandstöðu og þar að auki er um persónur að ræða sem lítið hafa þurft að hafa fyrir hlutunum, fengið flest upp í hendurnar, verðbréfasynirnir. Hins vegar er sök, ábyrgð og heimska Ögmundar Jónassonar og Lilju Mósesdóttur mikil. Þau láta að því liggja að þau styðji ríkisstjórnina en róa öllum árum, með hrunverjum, eins og staðreyndirnar sýna, gegn hag Íslands, gegn endurreisn lands og endurbætts siðferðis. Þau vilja halda áfram að gambla með útrásarfólkinu. Á meðan blæðir þjóðinni, opinberir starfsmenn sem annað vinnufært fólk missir atvinnu sína í stórum stíl, barnafjölskyldur missa heimili sín og fjölskyldur flosna upp.
Pétur

Þakka þér bréfið Pétur. Hlakka til að reyna mig við útreikninga Gunnlaugs. Myndirðu vera svo vænn að senda mér þá eða benda mér á hvar hægt er að nálgast þá. Við semsagt töpuðum 900 milljörðum í fyrra á samningsleysinu og erum að nálgast þúsund milljarða um miðjan mánuðinn. Þessa snilld held ég að verði erfitt að hrekja. En ég hlakka til að reyna. 
Kv. Ögmundur