VILTU ÞÁ BANNA ÁFENGI LÍKA?

Pétur Tyrfingsson sá mæti sérfræðingur um spilafíkn (og alkóhólisma) áætlar að hér á landi séu um 1.000 spilafíklar. Það er um 1-2% þeirra sem leggja undir í fjárhættuspili. Þú vilt semsé loka allri spilastarfsemi, sem er afþreying fyrir hin 99%, vegna vandamála þeirra þessara eins til tveggja prósenta. Og heldur virkilega að þar með verði enginn spilafíkill lengur á Íslandi? Alkóhólismi er margfalt útbreiddari en spilafíkn. SÁÁ telur að rúm 10% fullorðinna glími við alkóhólisma. Er ekki ráðið við því að banna sölu áfengis hér á landi? Hætta þá ekki allir að drekka og alkóhólismi deyr út? Maður getur vel skilið umhyggju þína fyrir spilafíklum. En hvers vegna í ósköpunum heldurðu að vandi þeirra verði leystur með því að banna spilabúllur og spilakassa - og ranghvolfir í þér augunum yfir hugmyndinni um spilavíti sem gæti verið afþreying fyrir erlenda ferðamenn. Hvers vegna eiga 98-99% að gjalda fyrir vanda 1-2%? Það er ágætt að hafa réttlætiskennd og vilja fegurra mannlíf. En hvað gerðir þú sem heilbrigðisráðherra til að efla úrræði fyrir spilafíkla? Spilafíkn er jú sjúkdómur. Er það ekki raunhæfari lausn að hjálpa fólki til að takast á við þennan sjúkdóm en að banna allt sem fyrir verður?
Halldór Á

Þakka þér fyrir bréfið. Ég held að það sé mikill misskilningur að gefa sér að fjárhættuspil sé skaðlaus afþreying fyrir þorra fólks sem stundar það. Ég hygg að flestir þeirra sem stunda spilakassa séu fíklar sem ráði ekki gjörðum sínum þegar spilavíti eru annars vegar - jafnvel þótt hitt sé eflaust rétt að þessir fíklar séu minnihlutahópur í þjóðfélaginu. Lokun spilakassa held ég að valdi fáum óhamingju. Miklu síður en bann við áfengissölu myndir gera. Meirihlutinn ræður við að umgangast áfengi en minnihluti ekki. Þessu tvennu er því að mínu mati ekki til að jafna saman, spilakössum og brennivíni.
Kv.
Ögmundur

Fréttabréf