FYRIRLITNING Á KJÓSENDUM

Marklaus atkvæðagreiðsla? Furðuleg var yfirlýsing Jóhönnu Sigurðardóttur núna í kvöldfréttunum, að þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave-samninginn væri markleysa og lýsir dæmalausri fyrirlitningu á kjósendum og þjóðinni. Jafnvel þótt takist nýr samningur við Breta og Hollendinga á síðustu stundu þarf hann að fara í gegnum lögboðið ferli á þingi og fyrir forseta áður en hann öðlast gildi. Þangað til er samningurinn frá 30. desember í gildi. Forsetinn vísaði þeim lögum/samningi til þjóðarinnar, eins og hann hefur vald til og nú fær hún tækifæri til að taka afstöðu til þessa máls, eins og hún á rétt á. Það hefur verið baráttumál VG að tryggja að fram fari þjóðaratkvæðagreiðslur ef ákveðinn hluti þjóðarinnar krefðist þess. Þessi atkvæðagreiðsla er einmitt skref í þá átt og m.a. nauðsynlegt þess vegna að hún fari fram, til að styrkja þetta vald forsetans, að minnsta kosti þangað til alþingi hefur komið því í verk að setja ákveðnar reglur um slíkar atkvæðagreiðslur. Og þá að hægt verði að kjósa um "alvörumál", eins og stríðsyfirlýsingar, aðild að hernaðarbandalögum, virkjanir sem hafa í för með sér stórfelld náttúruspjöll o.s.frv. Það er hægt að benda Jóhönnu forsætisráðherra á milku meiri "markleysu" og miklu dýrari, þar sem er umsóknin um aðild að EB.
Jón Torfason

Fréttabréf