HLUTAÐEIGANDI SEGI AF SÉR!
Heill og sæll Ögmundur og allir góðir hálsar: Furðulegt mál er
vægast sagt komið upp. Að láta sér detta í hug að semja við
eitthvað dularfullt fyrirtæki sem byggir á hernaðardýrkun er
ótrúleg heimska og bíræfni. Auðvitað hlaupa ýmsir til of vilja
endilega taka þetta hernaðarfyrirtæki E.C.A. Program fagnandi. Nú
er heimskan sögð vera ólæknandi en það er önnur saga. Þetta
einkennilega fyrirtæki birtir myndir frá Suðurnesjum þar með einnig
af Keflavíkurflugvelli á heimasíðunni: http://www.eca-program.com
Við eigum sem Íslendingar, mannréttinda og lýðræðissinnar, að
krefjast þess að þeir aðilar sem þarna eiga hlut að máli segi af
sér þegar í stað öllum opinberum trúnaðarstörfum! Það gildir bæði
um þá þingmenn sem málið varðar sem og þá embættismenn og aðra sem
hafa á hendi opinbera stjórnsýslu. Rökstuðningur: Íslendingar eru
vopnlaus þjóð. Starfsemi sem bæði er óljós og er ekki undir neinni
yfirstjórn ríkis né opinberra aðila getur gengið kaupum og sölum
eftir því sem henta kann. Þess vegna gæti fyrirtækið verið í
tengslum við glæpsamlega starfsemi t.d. á borð við Mafíuna og aðra
undirheimastarfsemi, því gæti þess vegna verið stýrt til hagsbóta
þeim sem vilja grafa undan lýðræði og mannréttindum. Augljóst er að
hér gæti orðið gróðrarstía mútustarfsemi eins og hún verst getur
orðið enda er margsannað að framleiðsla og sala hernaðargagna hefur
komið við sögu mútumála og grófra mannréttindabrota. Rekstur þessa
fyrirtækis gæti m.a. flækt Íslendinga inn í mjög vafasamar
milliríkjadeilur. Hvað ef hér væru t.d. þjálfaðir málaliðar sem
seinna væru sendir til byltingastarfsemi í ríkjum Ameríku, Afríku
eða Asíu, kannski jafnvel Evrópu og Ástralíu?
Að veita þessu fyrirtæki starfsleyfi hér gæti hugsanlega leitt til
þess að Ísland bryti sáttmálann um Nató og Sameinuðu þjóðirnar en
þar eru mjög skýrar reglur um hvers konar hernaðarstarfsemi má vera
í hverju aðildarlandi. Augljóst er, að starfsemi þessa fyrirtækis
gæti gengið þvert á hagsmuni Nató. Og ekki síst: Þetta fyrirtæki
með skuggaleg markmið gæti leitt til þess að íslenskir
sporgöngumenn þess kunna að brjóta gegn ákvæðum íslensku
hegningarlaganna um landráð.
Undirritaður leggur eindregið til að Utanríkismálanefnd Alþingis
verði þegar kölluð saman og þeim aðilum stefnt á fund hennar til að
upplýsa hvað sé í gangi. Umboð til að semja við fyrirtæki hvers
starfsemi kann að vera andstæð hagsmunum friðsamrar vopnlausar þjóð
er ekki fyrir hendi! Hér er stórmál á ferðinni og augljóst að
peningapúkarnir eru að koma úr skotum sínum og ætla sér stóra hluti
með þessum ísmeygilega fagurgala um betri tíð. Af ávöxtunum skulum
við þekkja þá!
Guðjón Jensson,
Mosfellsbæ