Fara í efni

HVAÐ DVELUR BOÐAÐAR BREYTINGAR?

Mér skildist á forystumönnum ríkisstjórnarinnar eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um daginn að nú þyrfti að þétta raðirnar. Talað var um sættir innan VG. Talað var um uppstokkun í ráðherraliðinu. Góðar fréttir út af fyrir sig.
Það vantaði hins vegar alveg að tala um stefnu ríkisstjórnarinnar og hvort hún hefði ekki siglt af leið - gleymt kosningastefnuskrám flokkanna og málefnasamningnum.
Og viku eftir þjóðaratkvæðið er engu líkara en drepa eigi uppstokkun innan ríkisstjórnarinnar á dreif. Formaður VG talar í gátum í stað þess að drífa í því að koma Ögmundi og Lilju Mósesdóttur strax inn í stjórnina. Þá þarf hann nauðsynlega að rifja upp með þeim kosningaloforðin. Helst vildi ég sjá meiri breytingar í ríkisstjórninni með innkomu Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur.
En varðandi kosningaloforðin má ýmislegt nefna. Hvar er td. hið opna og gagnsæja samfélag sem lofað var? Hvar er nýja siðferðið? Meira að segja á Alþingi situr útrásar- og arðgreiðslufólk úr fyrirtækjum sem hafa annað tveggja; skilað þjóðarbúinu milljarða skuldaböggum eða eru enn með starfandi fyrirtæki í bullandi taprekstri en greiða sér og sínum engu að síður arð. Af hverju ríkir þögn um svona lagað á Alþingi? Er þar bak við tjöldin starfandi eitthvað hagsmunabandalag þar sem meðlimirnir rífa sig niður í rassgat í ræðustól af mikilli heift, td. um Icesave, en halda svo friðinn þegar innvígðir eiga í hlut? Er þetta ekki bara sláandi en lítið dæmi um óbreytt siðferði? Og svo gagnsætt er samfélagið að sjálfir forystumenn ríkisstjórnarinnar  lýsa því yfir að þeir botni bara ekkert í því sem hefur verið að gerast í nýju bönkunum sem ríkið átti alla til skamms tíma.
Og hvað með útrásarvíkingana sem flestir valsa enn óáreittir í sínum svindl- og svínaríisrekstri fyrir tilstuðlan bankanna og þar með stjórnvalda? Þar hefur ekkert skort á dugnað og drift umboðsmanna stórskuldaranna. Þar hafa bankarnir og ríkisstjórnin séð um sína.
Og nú loksins stendur til að stofna sérstakt embætti skuldara. Það er ætlað venjulegu fólki sem hefur tekið á sig bankahrunið með öllum sínum þunga. En af hverju gerist ríkisstjórnin sjálf ekki umboðsmaður venjulegra skuldara, fólksins í landinu? Er til of mikils ætlast að hún hirði um almenning sem kaus ríkisstjórnarflokkanna í síðustu kosningum?
Þannig mætti áfram telja en ef ríkisstjórnin ætlar að halda andlitinu gagnvart kjósendum sínum og þjóðinni allri þarf amk. tvennt að gerast; það þarf að eiga sér stað málefnaleg uppstokkun sem mun fleiri í stjórnarliðinu en róttæki armurinn í VG kalla eftir. Og það verður að stokka upp í Stjórnarráðinu sem allra fyrst svo þar heyrist fleiri raddir og háværari sem þekkja og skilja þarfir fólksins í landinu.
Helga Þorsteinsdóttir