Fara í efni

JÓHANN Í DULRÆNU DEILDINNI?

Fréttahaukurinn Jóhann Hauksson er þessa dagana meira gefinn fyrir útúrsnúninga en staðreyndir. Þessi þaulreyndi rannsóknarblaðamaður segir á blogginu sínu: „Heyrði einhvers staðar að harðlínudeildin í VG væri óróleg og æst af því að hún vildi síst af öllu svíkja kjósendur sína. Kannski var þetta Guðfríður Lilja í vikulokaþætti RÚV sem tók svo til orða. Má einu gilda."

Ekki er þetta nú beint á faglegu nótunum. Það má einu gilda hver talaði, segir Jóhann, og líka hvað viðkomandi sagði. Hann heyrði þetta bara einhvers staðar. Afar einkennileg vinnubrögð; ekki síst af þeim sökum hversu víðtækar ályktanir hann dregur af því sem hann heyrði einhvers staðar - eða jafnvel hvergi.

En segjum nú sem svo að einhver fótur sé fyrir þessu. Að Jóhann hafi heyrt Guðfríði Lilju tala fyrir samfélagi jafnaðar og umhverfisverndar - og líka lagt ríka áherslu á trúnað við kjósendur VG. Er eitthvað athugavert við það? Er það ekki eðlileg afstaða? Eða á stjórnmálamaður að segja eitt við kjósendur sína en gera svo allt annað? Jóhann snýr öllu á hvolf og leggur út á versta veg. Hann segir að í þessu felist ekkert annað en „yfirlýsing um að "rólega" deildin í VG hafi svikið kjósendur sína."

Jóhann kemst sem sagt að þeirri niðurstöðu að þingflokksformaður VG sé að saka formann flokksins, Steingrím J. Sigfússon, og fleiri samherja sína um svik við stefnumál flokksins og kjósendur. Þetta er léleg röksemdarfærsla. Eða hvað ef Jóhann hefði heyrt Steingrím formann leggja áherslu á tryggð og trúnað við kjósendur. Hefði hann þá verið að saka suma félaga sína, og þ.á m. Guðfríði Lilju, um svik? Ég held það þurfi varla frekari vitna við um þá rökfræðilegu loftfimleika sem Jóhann stundar nú af kappi.

Hann talar um tvær deildir innan VG: rólegu deildina og órólegu deildina. Þetta er að stórum hluta til komið vegna ágreinings um lausn Icesave-málsins sem Jóhanni er mikið í mun að leysa. Og að því er virðist nánast sama hvernig það verður gert. Þess vegna ann hann sér engrar hvíldar að úthúða þeim þingmönnum VG sem hafa ekki viljað fara fram úr sér við lausn deilunnar. Hann segir að við „órólegu deildina í VG er bara þetta að segja: Þá fyrst svíkur hún kjósendur sína þegar hún kastar frá sér valdinu til að breyta samfélaginu og færir Sjálfstæðisflokknum völdin á ný."

Eftir erfiðar fimleikaæfingar er komin þreyta í Jóhann og hann slaufar greininni með tilkynningu um andlát ríkisstjórnarinnar. Hann hefur borið hlýhug til hennar en er farinn að tala um hana í þátíð. Svo virðist sem Jóhann sé búinn einhverjum dulrænum hæfileikum - einhverri yfirnáttúrulegri sýn. Fötin eru komin í hreinsun. Hann er búinn að kaupa kransinn og skrifa minningargreinina . Vonandi eru þessir hæfileikar á misskilningi byggðir - vonandi er Jóhann í „ótrúlegu deildinni" en ekki þeirri „dulrænu".
Helga Þorsteinsdóttir