Fara í efni

ÞJÓÐIN ER EKKI RUGL

Íslensku bankarnir voru aldrei mikið fyrir það að fara að reglum. Þeir styttu sér leið til þess að ná markmiðum sín hratt og örugglega. Íslenski hátturinn var alltaf að framkvæma hratt og virða aðeins þær reglur sem ekki þvælast fyrir settum markmiðum góðra manna. Það átti enginn að hafa yfirsýn yfir hvað þeir aðhöfðust. Þannig virkaði ekkert eftirlit og þeir sjálfir ákváðu hvaða reglum þeir fylgdu. Það sem veldur mér áhyggjum er að íslenski ráðherrann og íslenski bankamaðurinn eru líkir um margt. Íslenskir lykilráðherrar hafa í yfirlýsingum sínum um þjóðaratkvæðagreiðslu lýst þeim viðhorfum að hún valdi óhagræði, trufli vinnu þeirra í þágu góðra markmiða og niðurstaðan er fyrirframgefin sem markleysa. Ráðherrarnir hefðu miklu frekar viljað ganga til vinnu sinnar óbundnir af þessu stjórnarskrárbundna verklagi við ákvarðanatöku. Þegar ráðherra lýsir því yfir að þjóðaratkvæðagreiðsla sé óttalegt rugl þá er hann að tala niður eina af fáum reglum sem ætlað er að setja völdum þeirra sjálfra einhverjar skorður. Stjórnmálamaður sem gerir lítið úr því að hann svari til ábyrgðar gagnvart þjóðinni þarf sannarlega á þjóðaratkvæðagreiðslu að halda - óháð því hvað honum sjálfum finnst.
Árni V.