Fara í efni

TÍMI TIL AÐ TENGJA ORÐ OG ÁBYRGÐ

Athyglisverð umræða um útreikninga "hagfræðingsins" Gunnlaugs K Jónssonar. Menn virðast ekki þurfa að vera ábyrgir orða sinna lengur. Hver bullar um annan þveran. Eru menn búnir að gleyma yfirlýsingum Björns Vals um að markaðir munu hrynja á ef ekki tekst að semja "fyrir opnun markaða á mánudaginn" (Sjá http://eyjan.is/blog/2010/01/03/thingmadur-vg-stjornarslit-stadfesti-forseti-ekki-icesave-login/). Það er ennfremur stórkostlegt að heyra fyrrum yfirhagfræðing Seðlabankans Má Guðmundsson (sem brá sér í frí aðeins þremur árum fyrir hrun) nota nákvæmlega sömu röksemdir fyrir háum vöxtum og hann gerði fyrir hrun. Háir vextir styrki krónuna!!! Veit maðurinn ekki að það eru gjaldeyrishöft við lýði og þarafleiðandi ekki frjáls markaður með krónur?
Það þarf að afnema "sjálfstæði" Seðlabankans hið snarasta. Fyrir slíku sjálfstæði eru engin rök. Það er ekkert vit í því að Már Guðmundsson skuli einráður um meðferð AGS lánsins eða að einhver hálf útlensk nefnd skuli bulla um vaxtastig samkvæmt kaþólskri hagfræði sem orsakað hefur hrun og hörmungar. Þeir sögðu í amerísku byltingunni ýmislegt gáfulegt einsog "no taxation without representation" sem hægt væri að útleggja "ráðstöfun skattpeninga skal ávallt lúta lýðræðislegu eftirliti". Fyrir þegna nútímans er nánast ómögulegt að greina á milli vaxta, skatta og lífeyrisgreiðslna þegar útgjöld heimilisins eru gerð upp. Allt eru þetta ákvarðanir sem runnar eru undan löggjafarvaldinu og á því meðferð þessa fjár að lúta lýðræðislegu eftirliti og vaxtastig í landinu að lúta lýðræðislegu ákvarðanavaldi.
Í bréfi til John Taylor árið 1816 skrifar Thomas Jefferson, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna.
"Ég trúi því af öllu hjarta, einsog þú, að bankastofnanir eru hættulegri en her undir vopnum; og sú hugmynd að ráðstafa fjármunum og kalla það fjármögnun, sem ætlast er til að komandi kynslóðir greiði, er ekkert annað en stórkostleg svik við framtíðina."
Með því að auka sjálfstæði Seðlabanka og færa hann undan lýðræðislegu eftirliti og ákvörðunarvaldi og ráða "sérfræðinga" til að taka lykilákvarðanir um örlög þjóðarinnar, erum við, fólkið í landinu, í raun að afsala okkur völdum yfir okkar eigin örlögum. Dogmað á bakvið sjálfstæði Seðlabankans kemur úr fórum Washington Consensus sem er samheiti yfir vitlausustu öfgarnar í heimi frjálshyggjunnar. Trúarsetningar smíðaðar í Washington hafa síðan allir lapið upp án rökræðu og tekið sem vísindi. Og ekki einu sinni nú í brunarústum kerfisins, dettur nokkrum manni að efast um að við lifum í besta kerfi allra kerfi einsog Altúnga predikaði í Birtingi Voltaires.
Er ekki kominn tími til að tengja saman orð og ábyrgð, orsök og afleiðingar?
Hreinn K