Fara í efni

TVÖ REIKNINGSDÆMI FROSTA

Ég hef lesið það víða upp á síðkastið að kostnaðurinn sem íslensk þjóð verður fyrir vegna tafa við afgreiðslu Icesave nemi 75 milljörðum króna á mánuði. Það má þá gagnálykta að hefði þjóðinni borið gæfa til að samþykkja möglunarlaust þegar Svavar kom færandi hendi með sinn fyrsta samning værum við nú 750 milljörðum króna betur sett.
Skuldaklukkan sem ungir jafnaðarmenn hafa sett upp á vefnum politik.is gefur það í skyn þar sem þessi kostnaður er talinn frá einni sekúndu til annarrar og tapið hrúgast yfir þjóðina með ógnarhraða. Túlkunin er sú að skuldbindingin vegna Icesave er smámál miðað við tapið sem af því hlýst að hafa það hangandi yfir sér. Nú má spyrja sig hvernig þetta geti verið? Útreikningurinn byggir á þeirri forsendu að íslenskt hagkerfi vaxi að jafnaði um 3%. Þá er gefin sú forsenda að vegna ófrágengins Icesave samnings muni ekki verða hagvöxtur í eitt ár. Eins árs hækkun þjóðarframleiðslu skilar sér því ekki til þjóðarinnar fyrr en ári síðar. Sú hækkun sem aldei varð er síðan framreiknuð út eilífðina. Þegar sú fjárhæð sem úr því kemur er núvirt (miðað við 8% ávöxtunarkröfu) kemur út niðurstaðan 75 milljarðar á hvern mánuð ársins.
Þetta reikningsdæmi byggir á mikilli einföldun, sem getur að sjálfsögðu verið kostur þegar rætt er um flókin mál. Einfaldanir geta dregið fram aðaltariði mála og skerpt skilning. Mér er þó til efs að þetta reikningsdæmi dragi fram nokkur þau atriði sem kalla mætti aðalatriði. Mér er líka til efs að þetta dæmi sé vel til þess fallið að móta umræðugrundvöll um stöðu og valkosti Íslendinga í Icesave málinu.
Sem dæmi um áhrif þessara einfaldana má nefna að þarna virðist gert ráð fyrir að Ísland hafi ekki lent í neinu efnahagsáfalli öðru en því að samþykkja ekki Icesave. Það er gert ráð fyrir því að hin miklu hjól efnahagslífsins snúist á fullum hraða um leið og skrifað er undir. Það virðist engu máli skipta fyrir framgang íslensks efnahagslífs um hvað verður samið og hvort ríkið ber ábyrgð á 70 milljörðum króna meira eða minna. Til þess að draga úr vægi beinna skuldbindinga ríkisins - sem þarf að mæta með skattheimtu eða niðurskurði - er notað kostnaðarhugtak sem er byggt á reiknuðu framtíðarvirði frestaðrar þjóðarframleiðslu og vísað til þess sem taps þjóðarinnar. Getur verið að þetta reikningsdæmi sé byggt á nægilega traustum rökum til að segja okkur að allar aðgerðir aðrar en að samþykkja Icesave í hvaða mynd sem er séu smámál?
Að lokum vil ég leyfa mér að taka dæmi sem ég reikna með sambærilegri aðferð til þess að sýna áhrif þessarar reiknikúnstar. Ímyndum okkur launþega sem fær samkvæmt kjarasamningi 3% launahækkun um hver áramót. Segjum sem svo að kreppa skelli á og launþeginn samþykki vegna efnahagsástands að launahækkun eins árs falli niður en laun hækki áfram um 3% árlega frá næstu áramótum. Gefum okkur að hann gefi eftir tíu þúsund króna hækkun mánaðarlauna í eitt ár. Til þess að dæmin verði samanburðarhæf (og við sjáum áhrif núvirðingarinnar) skulum við gefa okkur að hann eigi þess kost að vinna út eilífðina. Sé samskonar útreikningi beitt og svipaðar ályktanir dregnar má segja að launþeginn tapi að lágmarki 200 þúsund krónum á mánuði af því að sleppa 10 þúsund króna launahækkun eitt árið. Sú fjárhæð miðar við 8% ávöxtunarkröfu. Ef miðað er við 5% þá þarf hann að bera kostnað upp á hálfa milljón á mánuði vegna þessa.
Þetta mikla tap þessa ímyndaða manns yrði eflaust nóg til þess að allt annað yrði smámál í samanburði og raunar ástæðulaust að ræða það. Þetta dæmi er náttúrulega bara bull, en það er sama bullið og það fyrrnefnda. Nú þegar hver vitnar í annan og flestir eru sammála um kostnaðinn við tafirnar á Icesave finnst ættu þeir sömu að vera meðvitaðir um að þessar tölur eru byggðar á arfavitlausu reikningsdæmi.
Frosti