Fara í efni

VIRÐA BER ÞJÓÐARVILJANN

Ár munu líða og aldir renna. Sá tími mun koma að einu gildir hvað íslenskur pólitíkus sagði á Alþingi 2010. Þó skiptir það máli á hverjum tíma hvað þeir hafast að sem drýgja þjóðum örlög og jafnt þó sú þjóð sé smá sem unnið er fyrir. Karp löggjafans á Alþingi og ábyrgðarlaus málflutningur forystumanna í atvinnulífi er meiri raun öllu hugsandi fólki en flest annað í dag. Og maður hlýtur að spyrja sig, jafnvel svo fáránlegra spurninga sem þeirrar hvort fólk sem vinnur í umboði þjóðarinnar hafi týnt einhverju því sem öllu ábyrgu fólki ber að vernda og er ábyrgð orða og gerða. Allt of oft hvarflar það að mér að ýmsir þeir sem gengist hafa undir þá þungu ábyrgð að vinna fyrir þjóð sína á örlagatímum horfi til þess eins að verða í málflutningi trúverðugri en andstæðingurinn og að einu megi þá gilda hvort aðalatriði séu höfð í heiðri eða skekkt til muna.
Núna í dag heyrði ég formann FFÍ tala eins og fávísan útlending um brýnt hagsmunamál umbjóðenda sinna; sjómannanna á Íslandi. Þetta er meiri óhæfa en um það sé hægt að þegja. Nýju lögin um aukningu á aflaheimildum á skötusel ásamt leigugjaldi til ríkis er lausn á nýju vandamáli sem ég verð að trúa að umr. formaður hafi ekki haft nægilegar fréttir af. Þessa dagana er það að sannast að útbreiðsla og magn þessa nýbúa á grunnmiðum okkar er orðin vandamál þeirra sem veiða grásleppu úti fyrir Norðurlandi. Þetta gengur þvert á útreikninga Hafró sem vinnur út frá reiknilíkönum sem eðlilega hafa ekki verið færð að nýjum staðreyndum. Við höfum ekki efni á að eyða orku og tíma í bull sem þetta. Fiskurinn er auðlind sem á ekki að verða vandamál févana þjóðar heldur happ sem nýta ber af skynsemi. Og það ógnar allri dómgreind að stöðugleikasáttmáli svonefndur sé hafður að hótunarefni ef það verður ekki viðurkennt að fyrir meðafla grásleppukarla á Norðurlandi skuli greiða okurleigu til sunnlenskra útgerðarfyrirtækja. Íslenska þjóðin krefst þess að umboðsmenn hennar vinni verk sín eins og fullorðið fólk.
Nú er í höndum löggjafans að nýta undanhald LÍÚ til að ganga af djörfung til móts við vilja meirihluta þjóðarinnar í því að stöðva það óréttlæti að handhafar aflaheimilda leigi þær og veðsetji fyrir ábyrgðarlausum fjárfestingum í óskyldri starfsemi eins og framkvæmdastjóri LÍÚ hefu nú viðurkennt og nema á annað hundrað milljarða! Vinstri stjórnin á möguleika á að sanna sig fyrir kjósendum eða tortíma trausti þeirra og á þessum dögum og í þessu tiltekna máli liggur líf hennar. Í dag finnst okkur mörgum að næstum daglega sé verið að berja okkur í hausinn þegar fluttar eru fréttir að nýjum spillingarmálum, en engar fréttir af viðbrögðum. Og roskinn maður sem á marga afkomendur segir við alla sína vini sem fara með umboð þessarar þjóðar: Í Guðs bænum! Með góðri kveðju!
Árni Gunnarsson