Fara í efni

BÓFARNIR SLEPPA

Sæll Ögmundur og takk fyrir svar þitt sem hefði mátt vera ítarlegra. Ég var að hlusta á fréttir af rannsóknarskýrslunni í morgun og eftir allan þennan lestur og að það liggi þar að auki fyrir um 2000 blaðsíðna skýrsla þá voru þetta of miklar og óþarfar málalengingar. Í stuttu máli var sagt: 1) það var engin starfandi eða starfhæf ríkisstjórn í landinu í aðdraganda bankahrunsins ef marka má orð nefndarmanna 2) Allt stjórnkerfið virðist hafa verið óvirkt, hrunið, lamað eða starfaði ekki 3) Allt eftirlitskerfi var hrunið, óvirkt eða starfaði ekki 4) Bankakerfið var yfirfullt af bankaræningjum og enginn gerði neitt í málinu til að stoppa bankaránið. Menn tóku frekar þátt frekar en að stoppa glæpina.
Þetta er svona málið í hnotskurn Hvers vegna er þetta ekki sagt í einföldum og berum orðum þannig að fólk átti sig á stöðunni? Hvað er verið að fela? Er okkur einhver greiði gerður með því að fela þetta? Varðandi greiðsluvanda heimilanna þá liggur nú fyrir lagafrumvarp fyrir þinginu, stjórnarfrumvarp nr 950 og mál þingsins nr 560. Hvenær ætlið þið að samþykkja þetta? Það tekur ekki nema svo sem einn dag eða svo. Hvers vegna ætli allir útrásarvíkingarnir og kúlulánaþegarnir þurfi ekki að fara í gegnum svona síur varðandi afskriftir? Það er bara almenningur sem er settur í gegnum svona síu en bófarnir sleppa og eru hvítþvegnir sýnist manni, ganga lausir og eru í góðum málum bæði hér heima og erlendis, búa í dýrum húsum með dýra bíla í hlaðinu hjá sér.
Sigurður Sigurðsson