Fara í efni

GEFUR LÍTIÐ FYRIR MERKIMIÐA

Heill og sæll Ögmundur.
Brostnar eru góðar vonir margra nú um stundir. Ekki veit ég lengur hver er til vinstri og hver til hægri og hver er yfirleitt hvar í hringsnúningi vaðalsins, sem umlykur okkur óbreyttan almenninginn, eins og drungaleg þokan. Og mér er reyndar orðið nokk sama með hvaða stimplum og merkimiðum flokka apparata valdakerfið skreytir sig með. Skreytnin breytir engu fyrir okkur óbreyttan pöpulinn. Mig grunar að sú sé skoðun yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Því vík ég hér strax að kjarna míns máls. Ég veit það Ögmundur, að þú hefur verið -og ert- góður talsmaður virks lýðræðis...EN, nú er það svo, að ekkert í ríkis-valda-kerfinu er þeirrar gerðar. Við búum enn við ólýðræðislegt tveggja turna samkrull, sem nauðgar trekk í trekk góðum vonum okkar, óbreytts almennings. Því segi ég hér mína umbúðalausu skoðun, að ANNAÐ HVORT kreistir þú hreðjar...só tú spík..Jóhönnu og Steingríms og nærð fram vilja hins raunverulega meirihluta, EÐA, þú sprengir þessa ríkisstjórn, því engu hefur hún skilað nema áframhaldi spillingar blinds valdabríma tveggja turna, sem fyrr. Og hvað ef hún er sprengd? Þá er það skoðun mín, að besta og heiðarlegasta fólkið, allra flokka á þingi, stýri um stund, með þig Ögmundur í forsæti og með virkjun lýðræðisins, með breytingar á stjórnarskrá og stjórnskipan ríkisins jafnframt. Og boða svo til kosninga við bestu hentugleika. Að lokum set ég fram mínar kröfur, sem venjulegur og óbreyttur Íslendingur: AGS - Nei takk! Icesave - Nei takk! ESB (núna) - Nei takk!
Pétur Örn Björnsson