HVENÆR HFEUR RÖKSTUDDUR GRUNUR ÞÝÐINGU?

Það er sannarlega með ólíkindum að fylgjast með umræðunni "Hrunskúrkur ársins" Margir eru nefndir en þó sumir meira en aðrir. Hæst er hrópað nafn Davíðs Oddsonar síðan Björgvins Sigurðssonar þá Geirs H Haarde og jafnvel Ólafs Ragnars Grímssonar. Reyndar hefur nafn Björgvins verið hrópað svo oft og svo mikið, ekki aðeins af lýðnum heldur einnig af ráðamönnum sem hafa kosið að nota hann sem heppilegan blóraböggul til að hylma yfir eigin gerðir, að vesalings Björgvin er búinn að segja af sér, ekki bara einu sinni heldur þrisvar. Geri aðrir betur. En mér hefur fundist gleymast í öllum þessum nornaveiðum hverjir hinir raunverulegu skúrkar voru. Voru það stjónmálamennirnir, sem sannarlega voru sumir vanhæfir, eða voru það eigendur og stjórnendur bankanna, sem virðast hafa notað bankana sem einhverskonar einka sparibauka og mjólkað útúr þeim fé að vild til eigin nota ? Ég tel að stjórnmálamennirnir hafi ekki vísvitandi ætlað að fremja ólögleg athæfi, hvort sem það varð síðan raunin eður ei. Þeir hafa trúlega gert mistök og síðan enn meiri mistök þegar þeir ætluðu að reyna að bæta fyrir mistökin þegar illa var komið. Það reyndist bara vera of seint. En eigendur og stórnendur bankanna, hvað með þá? Samkvæmt rannsóknarskýrslunni virtust þeir hafa gengið um bankana eins og þeir væru þeirra einkaeign, þótt bankarnir væru að sjálfsögðu hlutafélög. Það var svo linnulaust mjólkað útúr bönkunum í formi vafasamra einka(hlutafélags)lána að ekki stóð eftir steinn yfir steini. Og kæmi Seðlabankinn til aðstoðar og setti fé í annan enda banka til að styrkja eigið fé hans þá var bara enn meira mokað út úr hinum enda hans. Svo við hvern er að sakast um ófarirnar, stjórnmálamönnum eða bankamönnum? Stjórmálamenn seldu jú bankamönnunum þessa banka og margir vilja kenna því um að illa fór. En er við ÁTVR að sakast ef maður misnotar vín eða er við BYKO, sem selur kúbein, að sakast misnoti þjófur kúbeinið og brjótist inn í verslun ? Maður hefði jú haldið að það ætti að vera hægt að selja mönnum fyrirtæki, banka eða önnur, í þeirri trú að þeir mundu reka þau af bestu getu og hagkvæmni. Flestum eigendum fyrirtækja er jú annt um sitt fyrirtæki enda hafa þeir sitt lifibrauð af því. Svo benda margir á eftirlitsstofanir. Þær hafi brugðist eftirlitsskyldu sinni og orsakað hrun. En hvaða upplýsingar höfðu þær um stöðu bankanna? Mjög svo vafasamar skýrslur samkvæmt skýrslunni góðu. Er þar ekki jafnvel spurning um skjalafals ? En hver er þá staðan núna ? Í fréttum núna var fjallað um mann sem svindlaði 300 milljónir út úr fólki með einhverskonar gjaldeyrisbraski. Lögreglan hafði "rökstddan grun" um svindlstarfsemi mannsins og var hann því dæmdur í gæsluvarðhald. Í skýrslunni góðu kemur víða fram býsna "rökstuddur grunur" um ýmis ólögmæt athæfi. Situr einhver, sem bendlaður hefur verið við ólögmætt athæfi samkvæmt skýrslunni, í gæsluvarðhaldi meðan rannsókn fer fram ? Enginn, ekki neinn, ekki nokkur maður, að mér vitandi. En einhver verður víst að svara til saka á endanum og ég verð að segja; ekki vildi ég hafa verið skúringarkona í einhverjum hinna föllnu banka.
Aðalsteinn Stefánsson

Fréttabréf